31 desember 2014

Áramótakveðja

Óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á nýju ári.
Megi næsta ár verða gott ár þar sem við göngum til gleði og góðrar heilsu.
Sigga

27 desember 2014

Þvílík fegurð

Á þriðja dag jóla mættum við galvösk til göngu í froststillu og heiðríkju, sólarupprásin var einstaklega falleg er við gengum strandstíginn og vorum við stopp í góða stund til að dást að fegurðinni. Kænan var lokuð og bauð Jónas okkur í fínar veitingar að göngu lokinni og þökkum við honum kærlega fyrir móttökurnar.  12 mætt í dag.
Vala

23 desember 2014

Jólakveðja

Kæru Fjallafreyjur og Fjallafákar.
Okkar bestu jóla- og nýjárskveðjur til ykkar allra með innilegri þökk fyrir liðið ár í gleði, göngu og skemmtilegri samveru.
Sigga og Bjarni

22 desember 2014

Jólakaffi

24 mættu í jólakaffið í Sjúkraþjálfaranum 17, des. Margt gott og girnilegt var á boðstólum eins og venjulega. Sigga og Vala fengu jólapakka.


20 desember 2014

10 mætt

Þrátt fyrir mikið annríki og slæma færð mættu 10 til göngu í dag.  Veður var ennþá skaplegt og genginn var strandstígurinn fram og til baka.  Næsta laugardag verður Kænan lokuð, en þrátt fyrir það mætum við þar að venju og förum okkar göngu.
Óska öllum Fjallafreyjum, -fákum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.  Þakka alla góðu samveruna á árinu sem er að líða.
Jólakveðja, Vala

06 desember 2014

Snjór

Snjór yfir öllu , 1°C og hægviðri, svolítið þungt á fótinn þó ekki hálka og virkilega gott útivistarveður. Komum við á Hamrinum  og dáðumst að glæsilegu jólatrénu  og nutum útsýnis yfir bæinn.
13 mættar í dag.
Vala

29 nóvember 2014

Logn

Yndislegt veður í dag, 4°, logn, þurrt og gott skyggni.  Lækurinn og sjórinn í höfninni spegilsléttir, en gengið var upp með Læk og Reykdalsbrekkuna upp á Öldu þaðan meðfram Klausturgarðinum og niður Hvamma.  15 mætt í dag.
Vala

15 nóvember 2014

Jólaföndur og ganga

Það voru 14 Fjallafreyjur sem mættu í göngu í bongóblíðu í dag.
Gengið var um gamla vesturbæinn, þar sem Eygló leiddi okkur um sínar æskuslóðir og fræddi okkur um hús og ábúendur fyrr á árum.
Eftir göngu var farið í föndrið að Herjólfsgötu 36, þar sem biðu okkar góðar veitingar og sest var að kaffidrykkju og byrjað að föndra .10 til viðbótar bættust þar í hópinn. Að þessu sinni var afraksturinn krúttlegur jólasveinn.
Bestu þakkir; Eygló fyrir leiðsögninga, Gógó fyrir að taka á móti okkur og föndurnefndin fyrir veitingarnar og skipulagninguna, Sigrún St. Alla og Óla.
Góður og skemmtilegur dagur
Sigga

13 nóvember 2014

Jólaföndur

Hið árlega jólaföndur verður næsta laugardag.
Mæting við Herjólfsgötu 36 kl. 10 og gengið í klukkutíma.
Þær sem ekki ætla að ganga mæta kl. 11.
Kaffi og meðlæti, verð 500 kr.
Sigga

08 nóvember 2014

Sól

Yndislegt að ganga í dag.  Hiti við frostmark, hægur vindur, sól og þurrar götur.  Gengum rösklega "Leggjarbrjótshringinn" og nutum útsýnisins,  fjallahringurinn skartaði sínu fegursta.  16 mætt í dag.
Vala

01 nóvember 2014

Vorveður

Hringurinn í dag var í lengra lagi þar sem veður var alveg meiriháttar gott, 9°C, logn og þurrt.  Gengið var með Læk, um Setbergshverfið yfir að Kaplakrika, þaðan að Sólvangi og síðan aftur með Læknum á bakaleiðinni.  19 mætt í dag.
Vala

25 október 2014

Hálka

Mjög gott veður 3°C, hægviðri og þurrt, en töluverð hálka.  Stauluðumst að Ástjörninni til að komast á malarstíg þar sem malbikið var mjög hált, heldur hafði þó dregið úr hálkunni á bakaleiðinni.  Við skoðuðum gamlar tóftir útihúsa sem eru alveg við stíginn kringum Ástjörnina.  16 mætt í dag.
Vala



18 október 2014

Góð mæting

Í fínu veðri, hægum vindi, 7 °C og lítilsháttar úrkomu var gengið suður á Holt.  18 gengu og 3 bættust svo við í kaffið á Kænunni.  Aldeilis fín byrjun á Kænugöngunum.
Vala

16 október 2014

Kænan

KÆNAN Hf. kl. 10 á laugardag og alla laugardaga fram í apríl 2015
Sigga


11 október 2014

Borgarnes

Borgarnes tók vel á móti okkur í morgun  með björtu og fallegu veðri, en nokkuð svölu.
Gengum um gamla Borgarnes undir skemmtilegri og fróðlegri leiðsögn Guðrúnar Jónsdóttur safnstjóra. Fórum í Safnahúsið og skoðuðum ljósmyndasýninguna "Börn í 100 ár", stórskemmtileg sýning. Einnig skoðuðum við fallegt fuglasafn sem nýbúið er að opna.
Fengum ágætismat í Landnámssetrinu eftir skoðunarferðina og safnið.
Á heimleið var komið við á heimili Ólafar Evu og Trausta, sem stendur á fallegum útsýnisstað í útjaðri Borgarness. Þar þáðum við kaffisopa.
Stórskemmtilegur dagur með góðum  ferðafélugum.
Sigga

09 október 2014

Borgarnes

Næsta laugardag heimsækjum við Borgarnes.
Guðrún Jónsdóttir safnvörður tekur á móti okkur og gengur með okkur um bæinn og miðlar ýmsum fróðleik
Síðan förum við í Safnahúsið og skoðum sýninguna "Börn í 100 ár ".
Þá förum við í Landnámssetrið og fáum okkur súpu, brauð og salathlaðborð og kaffi á eftir.

Skoðunarferð með leiðsögn og Safnahúsið kostar 1600 kr. verið með það tilbúið í reiðufé.
Maturinn kostar 1990 kr. Ágætt er að hafa eitthvað nasl/banana í vasanum, þar sem við förum ekki í matinn fyrr en um eitt leytið.

Veðurspáin er fín, bjart en nokkuð svalt.
Makar velkomnir með.

Mæting við Iðnsk. í Hf.  kl. 9:30  (ath breyttan tíma) og við Krónuna í Mosó kl. 9:50.
Sigga
Hafnarfjall 2009

04 október 2014

Göngu á Helgafell aflýst.

Vegna leiðinda veðurs verður göngunni á Helgafell frestað til betri tíma.
Eigið góða helgi.
Sigga

02 október 2014

Helgafell i Mosfellsbæ

Næsta laugardag förum við í Mosfellsbæinn. Göngum á Helgafell, inn í Skammadal og fáum okkur kaffi í Úulundi.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 10, eða við Krónuna í Mosó kl. 10:20.
Nesti. 1/12-2 tímar.
Sigga

27 september 2014

Ástjörn - Hvaleyrarvatn - Gráhelluhraun

Frá Ásvöllum var gengið að Ástjörninni og meðfram henni, um Hádegsiskarð yfir á Vatnshlíðina, en þaðan er mjög fallegt útsýni yfir Hvaleyrarvatnið og fjallahringinn.  Hvítir fjallatoppar sýndu fyrstu merki um komandi vetur. Komið var við í Vatnshlíðarlundi á leið okkar yfir í Gráhelluhraunið,  þar sem við fengum okkur nesti í glampandi sólskini.  Margt ber fyrir augu í skóginum í Gráhelluhrauni og gaman að fara þar um. Frá Hlíðarþúfum gengum við um hlíðar Ásfjallsins og lokuðum hringnum eftir tæplega 3 klst. og ca 9 km göngu í ljómandi góðu veðri.  Þegar við settumst inn í bílana kom hellidemba, svo heppnin var aldeilis með okkur.  7 mætt í dag.
Vala





25 september 2014

Ástjörn-Hvaleyrarvatn-Gráhelluhraun

Genginn hringur frá Ásvöllum. Áætlaður göngutími um 3 klst.  Mæting á malarstæðinu bak við Haukahúsið, Ásvöllum kl. 10.  Nesti.
Vala

20 september 2014

Grænavatnseggjar

Það var aldeilis gott að ganga í dag, logn, þurrt og milt.  Skyggni var ekki gott þar sem mikil móða var í lofti sem þó sveipaði landslagið mikilli dulúð.  Gengið var frá Lækjarvöllum með enda Djúpavatns og á Grænavatnseggjar þar sem Sogin í allri sinni fegurð blasa við.  Nestið fengum við niður við Grænavatnið og gengum síðan meðfram því og yfir á einn hnúk Fíflavallafjalls þar sem mikið er af fallegum bergmyndunum.  Í brekkunni á niðurleið var þvílíkt magn af stórum krækiberjum að erfitt var að halda áfram. Fegurðin á þessum slóðum er alveg hreint mögnuð.   Gangan tók um 3 1/2 klst og var tæplega 8 km löng.  14 mætt í dag.
Vala




18 september 2014

Grænavatnseggjar

Næsta laugardag verður farið á Grænavatnseggjar við Djúpavatn.  Gengið verður frá Lækjarvöllum.  Fórum þessa göngu í lok ágúst í fyrra og sjá má feril af fyrirhugaðri gönguleið á myndasíðunni okkar.  Hálfsdagsferð.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala


13 september 2014

Og sólin skein!

Ákveðið var að fara ekki í Dauðadalina að þessu sinni, heldur var gengið á Þorbjörn.  Upp Gyltustíg á toppinn og síðan um hina mögnuðu Þjófagjá, skoðað hvar Camp Vail stóð á stríðsárunum og niður á Baðsvelli þar sem við nutum nestisins baðaðar í sólskini.  Þaðan gengum við Orkustíg að Bláa lóninu og svo til baka og áfram milli hrauns og hlíðar vestan við Þorbjörn.  Alltaf er jafngaman að ganga á Þorbjörn, landslagið þar er alveg stórkostlegt og fer hugarflugið á fullt, álfar og tröll út um allt.  Veður var með besta móti en þó var móða í lofti og skyggni því ekki eins gott og við hefðum viljað.  5 Fjallafreyjur gáfu sér góðan tíma til að skoða, njóta og mynda og tók gangan rúma 3 tíma.
Vala

11 september 2014

Óvissuferð

Ekki verður gengið í Dauðadali á laugardaginn eins og til stóð, heldur verður farið annað. Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10. Nesti.
Vala

06 september 2014

Klifsholt - Smyrlabúð

Gengið var frá Klifsholti yfir Smyrlabúð að Gjármótum (mótum Búrfells-og Selgjár) og þaðan til baka eftir reiðstígnum að Klifsholti og þar upp á topp.  Afar víðsýnt er af báðum þessum hæðum en útsýni var ekki gott, greinilega víða úrkoma í nágrenninu en við sluppum þó alveg.  Aðeins er farið að bera á haustlitum þó í litlu mæli sé.  Kaffið fengum við okkur í Actavislundinum.  3 mættar og tók þetta rúmlega 2 klst.
Vala



04 september 2014

Ath. kl 10

Næsta laugardag verður genginn hringur frá Klifsholti við Kaldárselsveg, farið verður yfir Smyrlabúðina og að Búrfelli.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala

Óskum Austurríkisförunum innilega góðrar ferðar og góðrar heimkomu.

02 september 2014

Helgafellið

Síðasta ganga Fjallafreyja á Helgafellið þetta árið var ósköp ljúf, milt og gott veður og birtan mjög falleg.  5 mættar.
Vala

30 ágúst 2014

Glymsbrekkur

Í hlýju og lygnu veðri, en vægri úrkomu gengu 13 Fjallafreyjur og -fákar upp með Glym vestanverðum.  Farið var niður um Þvottahelli og síðan upp Glymsbrekkur.  Ekki sést fossinn allur á þessari leið, en eigi að síður er hún mjög falleg og göngufólk vel meðvitað um návist fossins.  Mikið og gott útsýni er þarna, bæði yfir Glymsgilið, inn Botnsdalinn og út Hvalfjörðinn, ekki sáum við þó hæstu toppa.  Þegar við komum upp á brún, var eins og við manninn mælt það stytti upp og kom sólarglæta, klukkan var rúmlega 12 og allir orðnir svangir, svo ekki var beðið boðanna með að bjarga því við.  Til baka var svo haldið eftir gamalli vegarslóð um Svartahrygg og aðeins kíkt á hið fallega Bæjargil ofan við Stóra Botn.  Gangan tók 4 klst og var 8 km löng, hækkun um 240 m.
Vala




28 ágúst 2014

Glymur í Botnsdal

Næsta laugardag verður gengið upp með Glym.  Farnar verða Glymsbrekkur vestan við fossinn, ekki verður farið yfir ána.  Falleg leið en á köflum seinfarin.  Til baka verður síðan farið um Svartahrygg.  Þetta er um 8 km hringur og um 240 m hækkun.  Hálfsdagsferð, nesti.
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða Krónuna í Mosó kl. 9.20.
Vala

23 ágúst 2014

Stóra Skógfellið

Aðeins 5 mættu í dag til göngu á Stóra Skógfellið.  Gengið var frá Arnarsetri við Grindavíkurveg, gígum sem að mestu eru horfnir eftir efnistöku, eftir slóð í mjög fallegu hrauni.  Af kolli fellsins í 189 m.y.s. er mjög víðsýnt og okkur til ánægju var mjög gott skyggni og milt og gott veður.  Til baka var svo haldið eftir annarri slóð í hrauninu.  Gangan var 5,5 km og tók 2,45 klst., en mikið var af berjum og hægðu þau og útsýnið nokkuð för, enda enginn að flýta sér og um að gera að njóta útiverunnar.
Vala

21 ágúst 2014

Stóra Skógfell

Næsta laugardag verður gengið á Stóra Skógfell 188 m.y.s.  Farið frá Grindavíkurvegi að Arnarsetri og þaðan gengin falleg en gróf hraunslóð að fellinu.  Af fellinu eru mjög víðsýnt.  Ætla má að ferðin í heild sinni taki um 3-4 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.
Vala

18 ágúst 2014

Helgarferð í Húnaþing vestra

Velheppnaðri helgarferð í Húnaþing vestra er lokið
Það skiptust á skin og skúrir í veðri en endaði í bongóblíðu.
Ýmislegt var í boði, gönguferð á Káraborg í heldur hryssingslegu veðri, kaffihúsarölt og safnarölt á Hvammstanga, grillhátíð og kvöldvaka í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugabakka, öku-og gönguferð um Vatnsnesið, en fyrst voru Kolugljúfrin skoðuð, stórkostlega falleg, farið í  Borgarvirki, þaðan sem útsýnið var frábært, gengið niður að Hvítserk, sem stendur alltaf fyrir sínu. Að endingu var farið niður að Illugastöðum, þar sem gengið var eftir fallegri ströndinni og selalátur skoðuð.
Þar kvaddist hópurinn eftir frábæra samveru og eftirminnilega ferð.
Hafið kæra þökk fyrir ferðanefndin; María, Sigga og Vala , sem skipulögðu þessa skemmtilegu ferð.
Sigga.
Í Borgarvirki

14 ágúst 2014

Húnaþing vestra

 Þá er komið að árlegri helgarferð Fjallafreyja og -fáka.  Mæting að Laugarbakka, Miðfirði föstudag eftir kl. 18.00, en dagskráin hefst kl. 21.00 með því að María flytur okkur fróðleik um svæðið.  Á laugardeginum verður gengið á Káraborg og síðan gengið um á Hvammstanga og eitt og annað skoðað þar og að sjálfsögðu grill og gaman um kvöldið.  Á sunnudeginum verður ekið og gengið um ýmsa merkisstaði á Vatnsnesi.
Vala




09 ágúst 2014

Fegurð

Ekki ná orð yfir alla þá fegurð sem við blasti í dag.  Gengið var frá Ölkelduhálsi, fyrir Álftatjörn, yfir Kyllisfell og síðan var farið niður að Kattartjörnum og hringnum lokað aftur við Ölkelduhálsinn, um 11,5 km á 4 1/2 klst.  Mjög víðsýnt er af þessari gönguleið, Þingvallavatnið fagurblátt og fjöllin allt í kring mjög greinileg, t.d. sáum við inn á Langjökul, Hekluna í austri, dalina við Hveragerði og Vestmannaeyjar, litríka sjóðheita hveri og fagrar tjarnir, svo eitthvað sé nefnt.  Veður var með miklum ágætum og 16 mættu.
Vala

07 ágúst 2014

Ölkelduháls

Næsta laugardag gerum við 3. tilraun við Ölkelduhálsinn, en í síðustu 2 skiptin voru þoka og regn á Hellisheiðinni.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9:15.
Nesti, hálfsdagsferð.
Sigga

05 ágúst 2014

04 ágúst 2014

Helgafell

Þriðjudag frá Kaldárseli kl. 17.30.
Vala

Dulatjarnir

8 Fjallafreyjur gengu í ljúfu veðri frá Reykjanesbraut slóðann niður að Lónakoti og síðan vestur að Dulatjörnum og Dulaklettum.  Frá þúfunni Dulu sem var mið fiskimanna á árum áður héldum við til baka að rústum Lónakots þar sem við drukkum kaffi og nutum útsýnisins, þaðan fórum við svo að Lónakotsvatnagörðum og komum við í Vatnagarðahelli, vetrarhelli Lónakotsbænda.  Herma munnmæli að þar hafi verið bruggaður göróttur drykkur á bannárunum. Vatnagarðarnir eru geysilega fallegt svæði og nutu tjarnirnar sín mjög vel þar sem hásjávað var, en það gætir sjávarfalla í tjörnunum.  Mikið var af krækiberjum og gróðurinn allur í miklum blóma, stór burknastóð í gjótum.  Við gáfum okkur góðan tíma til að skoða og njóta og tók ferðin 3 klst.  Þegar að bílunum var komið fór að rigna, svo heppnin var aldeilis með okkur.
Vala

31 júlí 2014

Dulatjarnir - Lónakot

Gengið frá Reykjanesbraut í átt til sjávar að Dulatjörnum með viðkomu í Lónakoti.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.
Vala

27 júlí 2014

Flottar móttökur

11 Fjallafreyjur hófu göngu við Hafravatnsréttina um kl. 9.30 og gengu gróðusæla en blauta leið upp á Reykjaborgina þar sem Sigga beið okkar og fylgdi okkur í Sumarkinnina, sælureit þeirra hjóna. Þarna beið okkar þvílíkt veisluborð, en frúin átti 60 ára afmæli fyrr á árinu og bauð til síðbúinnar veislu af því tilefni.  Eftir tæplega klukkustundar dvöl þar fylgdi hún okkur áleiðis með viðkomu í Hlíð, fallegu sumarbústaðalandi. Gengum við síðan meðfram Hafravatninu að bílunum og vorum komnar þangað upp úr kl. 13.  Veður var með ágætum, gönguleiðin fögur og ljúf stundin í Sumarkinninni.
Kærar þakkir fyrir okkur Sigga og Bjarni.
Vala


24 júlí 2014

Hafravatn-Reykjaborg-Sumarkinn

Þá er það gangan næsta laugardag. Við göngum upp frá Hafravatni og upp á Reykjaborg.
Þaðan niður í Sumarkinn þar sem boðið verður uppá síðbúið sextugsafmæliskaffi.
Eftir kaffið gengið  meðfram Hafrahlíðinni og í bílana aftur.
Þetta er ca 9 km hringur.
Komið með kaffi á brúsa.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða við Hafravatnsafleggjarann kl. 9:15 (ekki Krónuna)
Vonast til að sjá ykkur sem flest.
Sigga

20 júlí 2014

Fossárdalur

9 Fjallafreyjur lögðu af stað í bliðuveðri inn Fossárdalinn í Hvalfirðinum á laugardaginn.
Dalurinn skartaði sínu fegursta og gróðurinn og fossarnir glöddu sálina.
Gengum síðan uppá Reynivallahálsinn, þoka og regn tók á móti okkur eftir nokkra göngu, svo við héldum aftur niður í dalinn. Aldrei sáum við i Sandfellið, þangað sem för var heitið, vegna þoku en birti aftur vel til þegar á leið á bakleiðinni.
Gangan tók 4 og hálfan tíma.
Sigga

17 júlí 2014

Fossárdalur í Hvalfirði

Næsta laugardag förum við í Hvalfjörðinn og göngum inn eftir fallegum dal, Fossárdal áleiðis að Vindáshlíð.
Leiðin fram og til baka er ca 12 km.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða Krónuna í Mosó kl. 9:20.
Nesti, hálfsdagsferð+
Sigga

12 júlí 2014

Elliðavatn

Gengið var eftir reiðstígum og gönguslóðum kringum vatnið og reyndist það vera hin fínasta leið, en mjög blautt var á og lítt fýsilegt að fara út í gróðurinn.  Veður var með ágætum, lítilsháttar rigning, hægviðri og hlýtt.  Áð var í Krika, útvistarsvæði Sjálfsbjargar, og var gott að geta sest þar niður til að njóta nestisbitans.  Þetta tók um 2 1/2 klst. og er áætluð vegalengd 8-9 km. 13 mættar.
Vala

10 júlí 2014

Elliðavatn

Gengið kringum Elliðavatn.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Elliðavatnsbæinn kl. 9.15. Nesti.
Vala




05 júlí 2014

Hreðavatn-Glanni-Paradísarlaut-Sumarhöll Sibbu

22 mættu í göngu í Borgarfjörðinn í dag. Veður var heldur hryssingslegt í byrjun, strekkingsvindur og smáskúrir, en fór batnandi eftir því sem leið á daginn.
Genginn var fallegur hringur hjá Hreðavatni og í gegnum Jafnaskarðsskóg, yndislegt svæði.
Þessi hringur var rúmur 8 km.
Þá var farið að fossinum Glanna í Norðurá og í Parardísarlaut og þá var sólin farina að skína á okkur.
Eftir það fórum við og heimsóttum Sibbu og Didda í "Sumarhöllina" þeirra. lítinn og fallegan bústað rétt við  Munaðarnes. Þar var vel tekið á móti okkur með ljúffengri kjúklingasúpu og kaffi og köku á eftir.
Bestu þakkir fyrir móttökurnar Sibba og Diddi :)
Haldið var heimleiðis um kl. 16:30 og allir hæstánægðir eftir góðan dag og góða samveru.
Sigga

03 júlí 2014

Borgarfjörður

Við heimsækjum Borgarfjörðinn næsta laugardag.
Förum að Hreðavatni og göngum meðfram vatninu og góðan hring þar.
Siðan verður fossinn Glanni í Norðurá skoðaður og farið niður að Paradísarlaut.
Þessi ganga er 8-10 km.
Eftir þetta er okkur boðið í sumarbústaðinn hennar Sibbu, þar sem hún býður okkur uppá gómsæta súpu.
Dagsferð og nesti.
Sigga

01 júlí 2014

28 júní 2014

Fegurð í Víti

Yndislegur dagur, hlýtt, þurrt og hægviðri.  Þegar keyrt var meðfram Kleifarvatni vorum við alveg heilluð, landslagið speglaðist í rennisléttu vatninu, þvílík fegurð.  Lagt var af stað frá bílastæði við Arnarfell og haldið að Geitahlíð inn að Víti, hraunstraum sem runnið hefur fram af hlíðinni í Kálfadali. Gengið meðfram hrauninu, upp hlíðina, hraunið þverað og síðan niður með því og gengið meðfram Geitahlíðinni framhjá Vegghömrum.  Þetta er mjög fjölbreytt og falleg gönguleið.  Hringurinn var um 9,5 km og tók 4 klst.  13 mætt.
Vala




26 júní 2014

Víti

Ekki munum við til heljar ganga næsta laugardag þó ætla mætti af fyrirsögn.  Gengið verður frá bílastæði við Arnarfell nálægt Krýsuvík og meðfram Geitahlíð að Víti, fallegum hrauntungum sem runnið hafa fram af hlíðinni niður í Kálfadali.  Gönguvegalengd er um 10 km.  Hálfsdagsferð. Nesti.
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala

21 júní 2014

Berklastígur

Bara 2 Fjallafreyjur mættu í Heiðmörkina í dag.  Þær gengu Berklastíg í Vífilstaðahrauni í  ljúfu veðri, 9°C, logni og smáúða
Vala

Sólstöðugangan

Hún lét nú ekki sjá sig blessuð miðnætursólin í sólstöðugöngunni í gærkveldi.
11 göngukonur og karlar héldu upp á Lág-Esjuna í mildu og hægu veðri. Fljótlega gengum við upp í þoku, en héldum ótrauð áfram í 500 m hæð. Útsýnið var ekkert en blankalogn.
Gangan og nestispásan tók tvo og hálfan tíma og allir voru sáttir í leiðarlok með góða útivist og hreyfingu.
Sigga


18 júní 2014

Sólstöðuganga

Næsta föstudagskvöld förum við í okkar árlegu sólstöðugöngu, en sólstöður eru laugard. 21. júní kl. 10:51 nákvæmlega.
Við göngum á Smáþúfur í Esju, en gengið er frá mynni Blikdals upp  Lág-Esju.
Þetta er kvöldganga og er mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 20, eða við Krónuna í Mosó kl. 20:20.
Nesti og hlýr klæðnaður.
Spáin er góð :)
Á laugardagsmorgun er ganga frá Heiðmerkurhliði kl. 9.
Sigga

15 júní 2014

Dýrðardagur.

Það var fallegt og bjart veður þegar 19 Fjallafreyjur og Fákar fóru austur í sveitir í gær.
Genginn var 13 km. hringur um fjöll, gil og dali, sem tók tæpa 6 tíma með góðum nestis-og útsýnisstoppum.
Eftir göngu bauð Jónas okkur í kaffi  og pott í sumarbústaðinn sinn
og þá skein sólin skært á okkur.Hafðu bestu þakkir fyrir Jónas :)
Þetta var frábær dagur í góðu veðri, fallegu landslagi og skemmtilegum félagsskap.
Sigga