04 ágúst 2014

Dulatjarnir

8 Fjallafreyjur gengu í ljúfu veðri frá Reykjanesbraut slóðann niður að Lónakoti og síðan vestur að Dulatjörnum og Dulaklettum.  Frá þúfunni Dulu sem var mið fiskimanna á árum áður héldum við til baka að rústum Lónakots þar sem við drukkum kaffi og nutum útsýnisins, þaðan fórum við svo að Lónakotsvatnagörðum og komum við í Vatnagarðahelli, vetrarhelli Lónakotsbænda.  Herma munnmæli að þar hafi verið bruggaður göróttur drykkur á bannárunum. Vatnagarðarnir eru geysilega fallegt svæði og nutu tjarnirnar sín mjög vel þar sem hásjávað var, en það gætir sjávarfalla í tjörnunum.  Mikið var af krækiberjum og gróðurinn allur í miklum blóma, stór burknastóð í gjótum.  Við gáfum okkur góðan tíma til að skoða og njóta og tók ferðin 3 klst.  Þegar að bílunum var komið fór að rigna, svo heppnin var aldeilis með okkur.
Vala

Engin ummæli:

Skrifa ummæli