31 desember 2016

Gamlársdagur

Það var aldeilis fín síðasta ganga ársins.  Veður með miklum ágætum -1°C og bjart, smágustur í byrjun, en síðan hægviðri.  Genginn var strandstígurinn til enda og á bakaleiðinni kíktum við í kaffi á Norðurbakkanum þar sem Kænan var lokuð.  14 galvaskar og kátar Fjallafreyjur mættu í dag.
Óska öllum Fjallafreyjum og fjölskyldum þeirra gleðilegs ár og þakka allar ánægjustundirnar á árinu sem er nú að ljúka.
Vala


24 desember 2016

Jólakveðja

Kæru Fjallafreyjur og fjölskyldur.
Sendum ykkur bestu jóla- og nýjársóskir. Megi friður og kærleikur umvefja ykkur um jólahátíðina.
Bestu kveðjur
Sigga og Bjarni

17 desember 2016

Hressandi

Gengið var um Holtið í 7°C, lítilsháttar úrkomu (vart merkjanlegri) og gjólu.  Mjög hressandi ganga.  13 mættu í dag.  Næsta ganga verður á gamlársdag, þá verður lokað á Kænunni en við finnum okkur einhvern góðan stað til að fá okkur kaffi eftir gönguna, en hittumst á sama stað og venjulega.
Vala

10 desember 2016

Lúxusdagur

Það lék allt við okkur í dag.  Veðrið frábært 4°C, logn og alveg þurrt.  Gengum uppá Hamarinn og dáðumst að ljósum prýddum bænum okkar, fórum síðan Kinnarnar þvers og kruss og að lokum með Læknum  og höfninni spegilsléttri.  Þvílík fegurð.  Og ekki versnaði þetta þegar á Kænuna kom, en þar var tekið á móti okkur með þessu líka fína hlaðborði.  Frábært að byrja daginn svona vel.  20 mætt í dag.
Vala

03 desember 2016

3. des og hiti 9°C

Eitthvað rigndi nú á okkur, en hvað um það, jörð er alauð og nýttum við okkur það og gengum rösklega upp "leggjarbrjótinn".  Virkilega hressandi ganga í dag.  Eftir veitingarnar á Kænunni kíktum við á leirkeraverkstæðið Gáru og einhverjar fóru út með jólagjafir og voru bara góðar með sig.  17 mættu  í dag.  Síðasta laugardag mættu 18 og þá var gengið um bæinn og skreytingar skoðaðar.  Það sem af er vetri hefur mætingin verið mjög góð, eða frá 14-21, vonandi verður svo áfram.
Vala