30 september 2015

Selfoss-Tryggvaskáli

Kæru Fjallafreyjur.

Næsta laugardag, 3.okt. er síðasta skipulagða ganga/ferð sumarsins.
Farið verður á Selfoss og gengið um Hellisskóg og að Hellinum sem hann er kenndur við, undir
leiðsögn Snorra Sigurfinnssonar frænda míns sem er þar öllum hnútum kunnugur.

Eftirá snæðum við í Tryggvaskála og fáum velútilátinn fisk dagsins, kaffi og brownies á eftir.
Maturinn kostar 2900 kr.

Gangan um skóginn er létt og tekur ca eina klst.

Ég þarf að vita hve margir mæta í seinasta lagi á föstudag með netpósti eða sms.

Mæting við Iðnsk. í Hf. kl 10 eða við Rauðavatn kl. 10:15.

Sigga

Með frænkum og systrum í Hellisskógi


26 september 2015

Fossvogsdalur

9 hraustar Fjallafreyjur mættu í göngu dagsins. Gengið var eftir Fossvogsdalnum og inn í Skógræktina og til baka. Vindur blés og rigndi, en við vorum samt í þokkalegu skjóli og var bara hressandi. Gengnir voru ca 6 km og tók einn og hálfan tíma.
Á eftir fengum við okkur hressingu í Grillhúsinu og spjölluðum í annan klukkutíma.
Sigga

Fossvogur.

Áætlun stendur. Sjáumst.
Sigga

24 september 2015

Fossvogur

Gangan á laugardaginn verður um Fossvoginn og tekur rúmlega klst. Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 10 eða við Grillhúsið við Atlandsolíu (áður Sprengisandur)kl. 10:10 en ég verð þar. Á eftir getum við fengið þar okkur kaffi og kökur eða smárétti.
Veðurspáin er frekar óhagstæð, þannig að fylgist með tilkynningum hér á síðunni á laugardagsmorguninn.
Sigga

19 september 2015

Hressandi

Það blés hraustlega þegar við hófum gönguna við Silungapoll en hlýtt og bara gaman að vera úti.  Fyrst var gengið meðfram Silungapolli og síðan hlykkjuðumst við um skjólgóðan Heiðmerkurskóginn upp að Hólmsborg, gamalli fjárborg.  Á bakaleiðinni drukkum við í flottu rjóðri og fórum síðan yfir hraunkantinn Kraga að Silungapolli.  Í restina hafði heldur dregið úr vindinum en hins vegar kominn þéttur suddi.  Mikil litadýrð var á leið okkar og margt að skoða.  6 hraustmenni mætt í dag og gengu 6 km á tæpum 2 tímum.
Vala

18 september 2015

Plan B

Hætt hefur verið við göngu á Esjuhorn þar sem veðurspáin er mjög óhagstæð.  Þess í stað verður gengið frá Silungapolli um skjólgóðan Heiðmerkurskóg að Hólmsborg.  Ætla má að gangan sé um 6 km og taki rúma 2 tíma.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala
Horft yfir Silungapoll að Heiðmörk

12 september 2015

Straumur-Lónakot

Það skiptust á skin og skúrir á göngu okkar í dag, milt og hægur vindur.  Gengið var með ströndinni að Lónakoti og ýmsar minjar fyrri tíðar skoðaðar.  Þegar að gömlu bæjarrústunum að Lónakoti kom helltist yfir okkur demba, en sem betur fer stóð hún stutt.  Á bakaleiðinni kíktum við á Óttarsstaði eystri og staðinn þar sem barnaheimilið Glaumbær stóð.  Gangan reyndis um 6,5 km og tók rúml. 2 1/2 klst.  8 mættar.
Vala

10 september 2015

Straumur-Lónakot

Áætlaður göngutími 2-3 klst.  
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10 eða við Straum kl. 10.10.  Nesti.
Vala
Við Lónakot

05 september 2015

Smyrlabúð

Fínasta ganga í dag.  Gengið frá Kaldárselsvegi að mestu eftir vegslóð/reiðvegi að Gjármótum, þ.e. mótum Selgjár og Búrfellsgjár.  Ætlunin var að ganga á syðsta Klifsholtið þar sem er afargóð fjallasýn í góðu skyggni, en við slepptum því þar sem gróðurinn þar var rennandi blautur, en við gengum eftir Smyrlabúðinni, drukkum í Actavisreitnum og skoðuðum hann, einnig fórum við um reit Lionsklúbbsins Ásbjarnar.  Veður var milt en þokusúld og sást aldrei til Helgafellsins.  Gangan með kaffi tók 1 klst og 50 mín og mældist 6 km.  Aðeins mættu 3 í dag.
Vala
Kristín og Vala við reit Íslands-Japans félagsins, Dagný myndaði.

03 september 2015

ATH kl. 10

Næsta laugardag verður gengið frá Kaldárselsvegi um Smyrlabúð og Klifsholt.  Líklega um 2ja tíma ganga.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala
Smyrlabúð að baki

01 september 2015

Helgafell

Alltaf er jafngott að ganga á Helgafellið, nú var hlýtt og logn en þoka á toppnum.  Þetta var síðasta Helgafellsgangan þetta árið.  6 mættar.  Á morgun er svo síðasta miðvikudagsgangan við Hvaleyrarvatn.
Vala