30 júlí 2016

Sól og blíða

Frábært veður hjá okkur í dag, sól, hægviðri og heiðskírt.  Getur ekki verið betra.  Við vorum 8 sem mættum og gengum meðfram Undirhlíðunum að gígunum.  Virtum þá vel fyrir okkur áður en snúið var til baka.  Á bakaleiðinni litum við á Skólalund, en þar var skuggi yfir og svalt og enn lá dögg á jörðu.  Segja má að betra sé að heimsækja Undirhlíðarnar eftir hádegi á sólardögum, því tré eru orðin mjög hávaxinn og skógurinn þéttur.  Kaffið drukkum við á sólríkum stað rétt við lundinn.

Minni svo á Heiðmörk á mánudag kl. 17 og Helgafell á þriðjudag kl. 17.30.

Vala


27 júlí 2016

Undirhlíðar

Næstkomandi laugardag verður gengið í Undirhlíðar.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9. Nesti.
Vala
Á leið í Undirhlíðar í júlí 2012

23 júlí 2016

Þjórsárdalurinn fagri

Það var fallegur dagur í dag í Þjórsárdalnum. Veður stillt og bjart og fagur fjallahringurinn.
Byrjuðum á að skoða bæinn á Stöng, sem fór í eyði  við eldgosið í Heklu 1104, en þá fóru 40 jarði í eyði í Þjórsárdalnum og nágrenni. Bærinn var svo grafinn upp og endurbyggður árið 1939.
Gangan upp fjallið var auðveld og þægileg, ca 300 m hækkun, fyrir utan nokkuð bratt gil sem við hálf skriðum upp.
Fórum á hæst punkt, 451 m og gengu eftir Stangarfjalli endilöngu og sáum heim að Háafossi.
Gengu síðan niður í hina undurfögu Gjá, sem heillar alltaf.
Siðan var Hjálparfossinn heimsóttur, hann alltaf jafn tilkomumikill.
Að endingu buðu Magga og Viggó í kaffi og brúnköku á Stöðlfelli :)
Stórfínn dagur, í góðum félagsskap en 7 mættu í dag.
Gengnir voru 11 km. á tæpum 5 tímum með 2 nestisstoppum.
Sigga

21 júlí 2016

Þjórsárdalur

Næsta laugardag förum við austur fyrir fjall og heimsækjum Þjórsárdalinn.
Ökum að Stöng og skoðum gömlu húsin þar,  göngum á Stangarfjall, sem er þægileg ganga og hækkun ca 300 m. Þaðan förum við að Gjánni, þeirri fögru náttúrusmíð. Að lokum skoðum við hinn fallega Hjálparfoss.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9, eða við Rauðavatn kl. 9:15. Nesti og dagsferð.
Ég hitti ykkur við afleggjarann á leið inn að Árnesi.
Sigga
Gjáin í Þjórsárdal, Stangarfjall í baksýn.


Hjálparfoss

16 júlí 2016

Bara blíðan

Þetta var yndisleg ganga hjá 10 Fjallafreyjum- og fákum í dag kringum Elliðavatnið.  Mjög hlýtt, logn og bjart.  Gróðurinn allur upp á sitt fegursta og vatnið rennislétt og fagurt.  Gengum rangsælis krignum vatnið frá Elliðavatnsbænum og mældist hringurinn 9,4 km og tók tæplega 3 tíma.  Mikið var spáð og spekulerað og náttúran dásömuð og ekki skemmdi nú félagsskapurinn daginn.  Virkilega góð ganga.
Vala

14 júlí 2016

Elliðavatn

Laugardaginn kemur verður gengið kringum Elliðavatn.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Elliðavatnsbæinn kl. 9.15.  Nesti.
Vala


09 júlí 2016

Húshólmi

Það voru 11 sem mættu til göngu í dag í fínasta veðri, reyndar var nokkur blástur en þurrt og bjart.  Gengið var frá bílastæði við Suðurstrandarveg með hraunjaðrinum þar til komið var að Húshólmastíg en hann liggur yfir í Húshólmann, þar má sjá ummerki um búskap til forna, en sú byggð mun hafa farið að mestu undir hraun.  Eftir að hafa skoðað okkur um í Húshólmanum fengum við okkur kaffi undir gömlum sjávarhömrum sem eru nokkurn spöl frá sjónum.  Þar er alveg magnað að sjá hvert lagið á fætur öðru í bergbrúninni.  Eftir nestisstoppið var gengið með berginu og horft yfir að litríkum brúnum Heiðnabergs og Krýsuvíkurbergs, þegar komið var að Vestarilæk var honum fylgt og síðan komið að einstöku gömlu fjárhúsi við klettahrygginn Stráka, sem er stórglæsilegur alsettur litlum tindum.  Þaðan var svo móinn þveraður að bílunum.  Gangan reyndist 10,3 km og tók rúma 4 tíma.
Vala


07 júlí 2016

Húshólmi - Strákar

Næsta laugardag verður genginn um 10 km hringur frá Suðurstrandarvegi.  Farið verður í Húshólma og kíkt á bæjarstæði gömlu Krýsuvíkur sem varð hrauni að bráð, þaðan gengið til sjávar og berginu fylgt að Vestarilæk, honum fylgt að Strákum glæsilegum klettahrygg.  Þetta er að mestu þægileg ganga.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Hálfsdagsferð.  Nesti.
Vala

Gamalt fjárhús við Stráka

05 júlí 2016

Helgafell

Það var mikill fjöldi fólks á Helgafellinu í góða veðrinu í dag, en því miður voru bara 4 Fjallafreyjur þar á meðal.  Vonandi verður meiri þátttaka næst.
Vala


02 júlí 2016

Selfjall

13 Fjallafreyjur og 3 Fjallafákar mættu í þessa fínu göngu á Selfjall við Lækjarbotna í dag.
Veður var gott, smá vindur í byrjun og alveg þokkalega hlýtt.
Gengið var eftir Selfjallinu og svo meðfram því vestan og norðanmeginn til baka. Lúpinan hefur heldur betur breytt úr sér á þessum slóðum síðan við gengum þetta 2009.
Gengnir voru 7.5 km og tók gangan um 2 og hálfan tíma.
Sigga
Pétur tók myndina