21 desember 2015

Jólakveðja

Elskulegu Fjallafreyjur og Fjallafákar.
Sendum okkar bestu jóla_og nýjársóskir til ykkar allra með innilegri þökk fyrir allar ánægjulegu samveru-og göngustundirnar á árinu sem er að líða.
Megi þær vera sem flestar á næsta ári.
Sjáumst 2. jan. við Kænuna.

Jólakveðjur
Sigga og Bjarni
Jólakerti í vetrarlegri Sumarkinn

19 desember 2015

Hálka

Mikil hálka er nú á götum og stígum bæjarins en veðrið með besta móti, hiti við frostmark og stilla.  Genginn var strandstígurinn, þar sem hann er alltaf ruddur og sandaður að mestu.  9 mættar í dag.

Óska öllum Fjallafreyjum og -fákum gleðilegra jóla og vonast til að sjá sem flesta i göngunni 2. janúar, þá verður nú gott að hreyfa sig eftir öll hátíðarhöldin.

Vala

17 desember 2015

Jólajóga og kaffi

23 mættu í jólajóga og kaffi þetta árið. Margt gott og girnilegt var framborið og gerð góð skil eins og venjulega.
Sigga

12 desember 2015

Froststilla

Aldeilis fallegur dagur í dag ,heiðskírt og töluvert frost en vegna stillunnar fann maður ekki mikið fyrir kuldanum á göngu.  Gengum upp á Holt.  Greinilegt að jólastressið er ekki að fara með alla því 16 mættu í dag.
Vala

05 desember 2015

Skjól í Hafnarfirði

Þrátt fyrir óveður í nágrenninu var skjól í Hafnarfirði og 1°C.  Genginn var strandstígurinn, en hann er vel ruddur.  10 mættar í dag.
Vala

28 nóvember 2015

Þvílík fegurð

Þeir gerast ekki fallegri vetrardagarnir en dagurinn í dag.  Frost 9°C, logn, heiðríkja og þykkur drifhvítur jafnfallinn snjór.  Gengum um miðbæinn og nutum þess að horfa á það sem fyrir augu bar, jólaþorpið, skreytingarnar og snjóinn.  17 mætt í dag.
Vala

23 nóvember 2015

Jólaföndur

Ágætlega var mætt í jólaföndrið okkar þetta árið en 22 handlagnar konur mættu á Herjólfsgötuna.
Boðið var uppá kaffi og meðlæti sem voru gerð góð skil. Takk fyrir föndurnefnd: Þórunn, Sigrún Ó og Bára Fjóla og takk Gógó
Sigga


Ekki slegið slöku við

Afraksturinn


Girnilegt kaffiborðið

14 nóvember 2015

Rósa sextug

13 mættu í göngu í dag frá Kænunni. Að göngu lokinni var haldið upp í Þórsberg til Rósu, sem er sextug í dag og óskum við henni innilega til hamingju.
Hún tók á móti okkur með dýrindis kjötsúpu, gómsætu brauði og áleggi og kaffi og afmælisköku í lokinn.
Kærar þakkir fyrir okkur elsku Rósa og Benni.
Rósa afmælisbarn með Fjallafreyjunum

Heiðurshjóninin Benni og Rósa
Göngukonur

07 nóvember 2015

Hlýtt og lygnt..

.. í dag 6°C en rigning í upphafi göngu.  Gengið var að Einarsreit og skoðaðar minjarnar um saltfisþurrkunina og hvað göngustígurinn þarna yfir er vel heppnaður.  Virtum fyrir okkur álfakirkjuna rétt við Mánastíginn og gömlu hleðslunar þar í kring.  15 mætt í dag.
Vala

28 október 2015

Afmæli

Þessi heiðurskona, Birgitta Guðlaugsdóttir er 70 ára í dag.
Við Fjallafreyjur óskum henni innilega til hamingju með daginn og samveruna í gegnum árin.
Sigga
Afmælisbarnið Gitta á uppáhaldsstaðnum sínum með góðum ferðafélugum. Siglufjörður í baksýn

24 október 2015

Svona á þetta að vera :)

25 mætt í dag í flottu veðri 2°C, logn og þurrt.  Gengum upp með Læk og Reykdalsbrekkuna, upp að Klaustri og nutum útsýnisins af Jófríðarstaðahólnum.  Fínasta ganga.
Vala

17 október 2015

Góð mæting

Gengið var upp á Holt og nýju æfingatækin við Suðurbæjarlaugina skoðuð á bakaleiðinni. Flottar græjur þar.  Fínasta veður 9°C og lítilsháttar úrkoma.  22 mættu í dag og voru enn fleiri síðasta laugardag, eða 25 manns.  Góð byrjun á Kænugöngunum það og vonandi verður svona góð mæting í vetur.
Vala

09 október 2015

Kænan

Frá og með laugardeginum 10. október og til vors verður gengið frá Kænunni alla laugardaga kl. 10.  Gengið í 1 klst. og síðan kaffi og rúnstykki á Kænunni á eftir.
Vala

03 október 2015

Selfoss-Hellisskógur-Tryggvaskáli

Fallegur og góður dagur í utanbæjargöngunni í dag. Hellisheiðin hvít og sólin skein á leið austur á Selfoss. Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta í Hellisskógi, þar sem við gengum undir fróðlegri og skemmtilegri leiðsögn Snorra Sigurfinnssonar. Skoðuðum Stóra-Helli og nutum hins fegursta útsýnis.
Enduðum á góðum hádegisverði í Tryggvaskáli.
26 mættu í gönguna en hún tók um einn og hálfan tíma með stoppi og frásögnum.
Takk fyrir daginn og fyrir allar göngurnar í sumar.
Nú taka við Kænugöngur kl. 10 á laugardagsmorgnum.
Sigga

30 september 2015

Selfoss-Tryggvaskáli

Kæru Fjallafreyjur.

Næsta laugardag, 3.okt. er síðasta skipulagða ganga/ferð sumarsins.
Farið verður á Selfoss og gengið um Hellisskóg og að Hellinum sem hann er kenndur við, undir
leiðsögn Snorra Sigurfinnssonar frænda míns sem er þar öllum hnútum kunnugur.

Eftirá snæðum við í Tryggvaskála og fáum velútilátinn fisk dagsins, kaffi og brownies á eftir.
Maturinn kostar 2900 kr.

Gangan um skóginn er létt og tekur ca eina klst.

Ég þarf að vita hve margir mæta í seinasta lagi á föstudag með netpósti eða sms.

Mæting við Iðnsk. í Hf. kl 10 eða við Rauðavatn kl. 10:15.

Sigga

Með frænkum og systrum í Hellisskógi


26 september 2015

Fossvogsdalur

9 hraustar Fjallafreyjur mættu í göngu dagsins. Gengið var eftir Fossvogsdalnum og inn í Skógræktina og til baka. Vindur blés og rigndi, en við vorum samt í þokkalegu skjóli og var bara hressandi. Gengnir voru ca 6 km og tók einn og hálfan tíma.
Á eftir fengum við okkur hressingu í Grillhúsinu og spjölluðum í annan klukkutíma.
Sigga

Fossvogur.

Áætlun stendur. Sjáumst.
Sigga

24 september 2015

Fossvogur

Gangan á laugardaginn verður um Fossvoginn og tekur rúmlega klst. Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 10 eða við Grillhúsið við Atlandsolíu (áður Sprengisandur)kl. 10:10 en ég verð þar. Á eftir getum við fengið þar okkur kaffi og kökur eða smárétti.
Veðurspáin er frekar óhagstæð, þannig að fylgist með tilkynningum hér á síðunni á laugardagsmorguninn.
Sigga

19 september 2015

Hressandi

Það blés hraustlega þegar við hófum gönguna við Silungapoll en hlýtt og bara gaman að vera úti.  Fyrst var gengið meðfram Silungapolli og síðan hlykkjuðumst við um skjólgóðan Heiðmerkurskóginn upp að Hólmsborg, gamalli fjárborg.  Á bakaleiðinni drukkum við í flottu rjóðri og fórum síðan yfir hraunkantinn Kraga að Silungapolli.  Í restina hafði heldur dregið úr vindinum en hins vegar kominn þéttur suddi.  Mikil litadýrð var á leið okkar og margt að skoða.  6 hraustmenni mætt í dag og gengu 6 km á tæpum 2 tímum.
Vala

18 september 2015

Plan B

Hætt hefur verið við göngu á Esjuhorn þar sem veðurspáin er mjög óhagstæð.  Þess í stað verður gengið frá Silungapolli um skjólgóðan Heiðmerkurskóg að Hólmsborg.  Ætla má að gangan sé um 6 km og taki rúma 2 tíma.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala
Horft yfir Silungapoll að Heiðmörk

12 september 2015

Straumur-Lónakot

Það skiptust á skin og skúrir á göngu okkar í dag, milt og hægur vindur.  Gengið var með ströndinni að Lónakoti og ýmsar minjar fyrri tíðar skoðaðar.  Þegar að gömlu bæjarrústunum að Lónakoti kom helltist yfir okkur demba, en sem betur fer stóð hún stutt.  Á bakaleiðinni kíktum við á Óttarsstaði eystri og staðinn þar sem barnaheimilið Glaumbær stóð.  Gangan reyndis um 6,5 km og tók rúml. 2 1/2 klst.  8 mættar.
Vala

10 september 2015

Straumur-Lónakot

Áætlaður göngutími 2-3 klst.  
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10 eða við Straum kl. 10.10.  Nesti.
Vala
Við Lónakot

05 september 2015

Smyrlabúð

Fínasta ganga í dag.  Gengið frá Kaldárselsvegi að mestu eftir vegslóð/reiðvegi að Gjármótum, þ.e. mótum Selgjár og Búrfellsgjár.  Ætlunin var að ganga á syðsta Klifsholtið þar sem er afargóð fjallasýn í góðu skyggni, en við slepptum því þar sem gróðurinn þar var rennandi blautur, en við gengum eftir Smyrlabúðinni, drukkum í Actavisreitnum og skoðuðum hann, einnig fórum við um reit Lionsklúbbsins Ásbjarnar.  Veður var milt en þokusúld og sást aldrei til Helgafellsins.  Gangan með kaffi tók 1 klst og 50 mín og mældist 6 km.  Aðeins mættu 3 í dag.
Vala
Kristín og Vala við reit Íslands-Japans félagsins, Dagný myndaði.

03 september 2015

ATH kl. 10

Næsta laugardag verður gengið frá Kaldárselsvegi um Smyrlabúð og Klifsholt.  Líklega um 2ja tíma ganga.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala
Smyrlabúð að baki

01 september 2015

Helgafell

Alltaf er jafngott að ganga á Helgafellið, nú var hlýtt og logn en þoka á toppnum.  Þetta var síðasta Helgafellsgangan þetta árið.  6 mættar.  Á morgun er svo síðasta miðvikudagsgangan við Hvaleyrarvatn.
Vala

31 ágúst 2015

29 ágúst 2015

Borgarfjörður-Gunnuhús

Það var góð heimsóknin okkar í Borgarfjörðinn í dag. 10  voru mættir til göngu. Nokkur blástur á toppi Litlaskarðsfjalls en hlýtt og gott í skjóli trjánna við Lambavatn og í skarðinu milli Litlaskarðsfjalls og Grafarkotsfjalls.
Heiðskírt og bjart veður og gefinn tími fyrir berjatínslu, en talsvert var af bláberjum á leið okkar.
Eftir góða göngu og berjatínslu í 4 tíma var haldið í Gunnuhús, en það kallast bústaður Guðrúnar Sigruðardóttur og Dags Garðars. Þar fengum við höfðinglegar móttökur, frábæran grillaðan silung með grænmeti. Í eftirrétt var svo ostaísterta og kaffi.
Þaðan héldum við heimáleið sprengsödd og sæl eftir daginn.
Kærar þakkir fyrir okkur Guðrún og Dagur.
10 mættir, Sigga tók mynd
Dagur og Guðrún í fallega bústaðnum sínum í Heyholti

27 ágúst 2015

Heimsókn í Borgarfjörð

Gengið eftir stikaðri slóð um Grafarkotsskóg í skarð milli Litla-Skarðsfjalls (230 m) og Grafarkotsfells (170 m), þaðan er góð leið á fellin sem bjóða upp á stórglæsilegt útsýni.  Úr skarðinu verður gengið að Lambavatni.  Þetta verður róleg ganga í 3-4 tíma, 7- 8 km, mjög skemmtileg gönguleið.  Þó nokkuð er af berjum þarna.  Takið með nesti fyrir gönguna.
Að göngu lokinni tekur Guðrún Sig. á móti okkur í Gunnuhúsi í landi Heyholts.
Veðurspáin er góð, en gæti orðið svalt um morguninn.
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Dagsferð.
Vala
Litla-Skarðsfjall og Grafarkotsfell séð frá Lambavatni





22 ágúst 2015

Leirvogsá-Þverárkotsháls

Ljúf ganga í dag í notalegu veðri. Falleg gönguleiðin upp með Leirvogsánni og gott útsýnið af Þverárkotshálsinum.
Lengd 9,5 km, hæð 192 m og göngutími 3 tímar.
7 mættu í gönguna.
Sigga
Á Þverárkotshálsi í Esjuhlíðum

20 ágúst 2015

Þverárkotsháls í Esjuhlíðum

Næsta laugardag göngum við upp á Þverárkotsháls í Esjuhlíðum. Keyrum
inn í Varmadal og gengið upp með Leirvogsá og á vegaslóða upp Þverárkotsháls (91 mys.)
8-9 km sem tekur 2-3 tíma að ganga.
Takið með ykkur vaðskó því við þurfum að vaða yfir eina á.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða Krónuna í Mosó kl. 9:20.
Nesti.
Sigga
Lillý og Þverárkotsháls í baksýn

16 ágúst 2015

Silungapollur - Lækjarbotnar

Ljómandi gott veður í dag, hetturnar voru reyndar á stöðugu flakki upp og niður því hvað eftir annað héldum við að nú væri hann að fara að rigna, en þetta voru alltaf bara nokkrir dropar í lofti.  Gengið var í mjög fallegu umhverfi frá Silungapolli yfir hraunið að Lækjarbotnum og hraunjaðri fylgt uppfyrir öxl Selfjalls og síðan niður slóð sem þar liggur og þaðan til baka yfir hraunið að Silungapolli.  Lítið fer fyrir ummerkjum eftir heimilið sem þar stóð.  Á þessum slóðum liggur hjólaleiðin "Jaðarinn" og mættum við mörgum hjólamönnum sem virtust skemmta sér vel.  Gangan tók 3 klst. og var 9 km löng.  10 mætt í dag.
Vala



14 ágúst 2015

Silungapollur - Lækjarbotnar

Genginn 9 km hringur frá Silungapolli.  Ætla má að gangan taki rúma 3 tíma.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9.15.  Nesti.
Vala

31 júlí 2015

Heiðmörk

Mæting við gönguhliðið kl. 9.  Kaffi á brúsa.

Einnig hefðbundin mánudagsganga frídag verslunarmanna og Helgafell á þriðjudag.
Vala

25 júlí 2015

Enn einn frábær dagur á göngu.

Það var aldeilis flottur dagurinn í dag þegar gengið var á Melahnúk, bjart, milt og logn megnið af tímanum.  Melahnúkur lætur lítið yfir sér þar sem hann kúrir í skjóli stóra bróður Dýjadalshnúks sem gnæfir yfir, en hann býður þó upp á frábært útsýni og þá sérstaklega flott í svona björtu veðri eins og í dag.  Gengið var upp Þjófaskarð og lækjum fylgt og fossar skoðaðir.  Þegar upp er komið blasir Blikdalurinn við.  Nestis var notið í hlíðum hnúksins og síðan var haldið niður á við og þá farin heldur beinni leið og komið niður skarð rétt hjá bílunum.  Gangan var um 6 km löng með tæplega 500 m hækkun og tók rúmlega 3 1/2 klst.  13 tóku þátt.
Vala



23 júlí 2015

Melahnúkur (540 m) í Kjós

Gengið verður upp Þjófaskarð við mynni Miðdals.  Gönguhækkun tæpir 500 m og ætla má að gangan taki um 3 klst.  Gott að vera vel skóaður og jafnvel með legghlífar.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Nesti.
Vala
Útsýni frá hlíðum Melahnúks

18 júlí 2015

Náttúran er dásamleg..

.. það sannaðist enn einu sinni í dag.  Gengið var frá Ölkelduhálsi með Hrómundartind til annarar handar og Hengilinn með sínar litríku hlíðar til hinnar.  Framundan blasti við fjallahringurinn við Þingvallarvatn og nágrenni.  Þegar komið var í Seltungur var nestis og veðurblíðu notið og síðan haldið með hinni hlið Hrómundartinds og var þá farið eftir hinu magnaða Tindagili. Það er mikil upplifun að fara þar um.  Gengið var eftir fallegum læk að Kattartjörn efri og síðan haldið í átt að Ölkelduhálsi.  Rifjuð var upp gangan sem við fórum í fyrra á Kyllisfell og að Kattartjörnum, en hún er eftirminnileg vegna fegurðarinnar á þessum slóðum.  Horfðum m.a. yfir Reykjadalinn og kíktum á hverina sem eru við gönguleiðina að bílunum.  Hringnum var svo lokið eftir ca 5 tíma göngu.  11 nutu dagsins.
Vala

16 júlí 2015

Umhverfis Hrómundartind

Genginn verður ca 12 km hringur frá Ölkelduhálsi umhverfis Hrómundartind.  Farið verður eftir hinu stórfenglega Tindagili.  Ætla má að gangan taki 4-5 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9.15.  Nesti.  Ríflega hálfsdagsferð.
Vala

12 júlí 2015

Á slóðum berklasjúklinga

Í ljómandi góðu veðri gengu 11 Fjallafreyjur og 1 Fákur á slóðum berklasjúklinga sem dvöldu á Vífilstöðum á árum áður.  Gengið var frá gönguhliðinu við Heiðmörk, komið við í Maríuhellum á leið okkar yfir að veginum með Urriðaholtinu, þaðan gengum við Berklastíg, sem var útivistarstígur sjúklinganna, yfir að Vífilstöðum.  Þarna er mjög fallegt samspil hrauns og gróðurs.  Frá Vífilstöðum var gengið að vatninu og kringum það, síðan héldum við upp Heilsustíginn að vörðunni Gunnhildi.  Að komast þangað án þess að hósta upp blóði var merki þess að sjúklingarnir hefðu náð nægum bata til að útskrifast. Þarna eru ýmsar gamlar minjar, vatnstankur fyrir hælið og skotbyrgi frá stríðsárunum, en afar víðsýnt er þarna framan í hæðinni.  Aftur var farið niður að spegilsléttu vatninu og þaðan yfir í Heiðmörkina því maginn var farinn að kalla á nestið sem beið í bílnum.  Gangan tók um 2 1/2 klst. með kaffinu.
Vala





09 júlí 2015

Berklastígur í Vífilstaðahrauni

Berklastígur er gömul gönguleið í hrauninu milli Vífilstaða og Urriðaholts, nú hefur hún verið stikuð.  Genginn verður hringur frá hliðinu.  Mæting við gönguhliðið í Heiðmörk kl. 9.  Nesti.
Vala
Við Urriðaholtsenda Berklastígs

05 júlí 2015

Vörðufell

Í dásemdarveðri gengum við 20 Fjallafreyjur og Fákar á Vörðufellið. Landslag fjallsins er fjölbreytt og fallegt með fallegu vatni; Úlfsvatni i miðju og djúpu gili sem skerst inn i fjallið. Útsýnið var dásamlegt til allra átta.
Genginn var 12 km hringur og tók gangan 5 klst og 20 mín með 2 nestisstoppum og nokkrum útsýnisstoppum.
Eftir göngu var Ólafsvallarkirkja á Skeiðum skoðuð.
Góður og skemmtilegur dagur.
Sigga
A Vörðufelli

02 júlí 2015

Vörðufell

Næsta laugardag er dagsferð austurfyrir fjall. Þá göngum við á Vörðufell (391 mys) frá bænum Fjalli á Skeiðum. Göngutími 3-4 tímar og ca 300 m hækkun. Þægileg ganga.
Skoðum Ólafsvallarkirkju á Skeiðum í leiðinni.
Veðurspáin er glimmrandi góð.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9, eða Rauðavatn kl. 9:15. Einnig er hægt að hittast við Vorsabæjarafleggjarann við Brautarholt á Skeiðum kl. 10:15. Eg verð þar á rauðum bíl.
Nesti, dagsferð.
Sigga
Vörðufell í fjarska, myndin er tekin af Galtafelli í Hreppum

27 júní 2015

Keilir, jónsmessuganga

8 manns mættu til jónsmessugöngnnar þetta árið í mildu og fallegu veðri.
Gangan tók rúmlega 3 tíma. Uppgönguleiðin var nokkuð laus í sér eins og venjulega en annars auðveld. Þegar upp var komið sendi sólarlagið fallega birtu yfir umhverfið og þegar smá skúr kom yfir myndaðist  regnboginn  umhverfis okkur og fjallið og ævintýralegur ljómi lýsti upp umhverfið.
Dásamleg stund.
Sigga

23 júní 2015

Jónsmessuganga

Næsta föstudag fögnum við jónsmessu með kvöldgöngu á Keili.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 21, Nesti og hlýr klæðnaður, Veðurspáin lofar góðu.
Sigga

Ítalíuferð

Áttum dásamlega daga á Ítalíu, göngu- og skoðunarferðir við Comovatn og Lugano í Sviss.
Myndin er tekin á San Salvatore fjalli við Lugano á þjóðhátiðardaginn 17. júní
Sigga

20 júní 2015

Ketilsstígur - Miðdegishnúkur

Bara 4 mættu í gönguna í dag.  Gengið var frá hverasvæðinu við Seltún eftir Ketilsstíg framhjá Arnarvatni og fram á vesturbrún Sveifluhálsins og þar var horft yfir Ketilinn sem stígurinn dregur nafn sitt af, þarna er mjög gott útsýni yfir Móhálsadalinn.  Allir voru sammála um að ganga á Miðdegishnúk (392 m) og ekki vorum við svikin af útsýninu þar.  Það er alveg magnað að ganga um Sveifluhálsinn, mjög hrikalegur víða og ýmist algjör auðn eða grösugir balar.  Veður var með ágætum, hægviðri og hlýtt, en smá væta af og til.  Gangan reyndist 11 km og tók 4 tíma.
Vala

18 júní 2015

Ketilstígur

Gengið frá Seltúni við Kleifarvatn um Ketilstíg upp í Sveifluhálsinn og þar genginn hringur.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Vala

15 júní 2015

Dásamlegt veður á Smalaholti

5 Fjallafreyjur fengu aldeilis gott veður í göngunni í dag.  Gengið var frá Vífilstaðavatni yfir á Smalaholt og skógarstígum fylgt upp á háhæðina (125 m) þar er útsýnisskífa og frábært útsýni.  Allur fjallahringur blasti við okkur og var Snæfellsnesið mjög skýrt og flott.  Rétt við skífuna er konumynd rist í klöppina. Af Smalaholtinu gengum við að útvistarsvæðinu við Sandahlíð og þaðan niður að Vífilstaðavatni, en heldur var torfært þar á kafla, en alltaf má finna leið.  Eftir tveggja tíma göngu fengum við okkur svo langþráðan sopann.
Vala

11 júní 2015

Smalaholt

Gengið frá Vífilstaðavatn um stíga skógræktarinnar á Smalaholti.  Mæting á malbikaða bílastæðinu við vatnið kl. 9.  Nesti.
Vala


06 júní 2015

Góður dagur á Skógfellavegi

Skógfellavegur er mjög skemmtileg gönguleið, fjölbreytt gönguland og fallegt umhverfi.  Lagt var upp frá spennustöðinni við Voga og endað við íþróttasvæðið í Grindavík, vegalengdin mældist 17 km og tók tæpa 6 tíma.  Veður var með ágætum og kunnum við vel að meta það eftir það sem á undan hefur gengið. 13 gengu í dag og voru allir brattir að leiðarlokum.  Takk fyrir samveruna.
Vala

04 júní 2015

Skógfellavegur

Gengin gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur um 15 km löng.  Ætla má að gangan taki 5-6 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Dagsferð.  Nesti.  2 í bíl.
Núna lítur vel út með veður.
Vala

02 júní 2015

Helgafellið..

..tók vel á móti okkur í dag, vindur hægari en í bænum og sól og blíða á toppnum.  Alveg ljómandi fínt.
Vala

30 maí 2015

Plan B varð það

Hann blés heldur hraustlega af suðaustri í morgun, þannig ákveðið var að ganga hring frá Hvaleyrarvatni, um Bugar að Kaldárseli og þaðan um Gjár og Kjóadal aftur að vatninu.  Kíkt var á gamla rétt frá Hvaleyrarseli úti í hrauninu og skoðað hvernig Kaldáin hverfur niður í hraunið, en hún er mun lengri og vatnsmeiri en oft áður.  Það blés hressilega á okkur, en alltaf komu skjólblettir af og til og síðan var vindur í bakið seinni hluta göngunnar.  Kaffið var drukkið í  Gjánum glæsilegu.  Ýmsar gamlar hleðslur urðu á leið okkar og er alltaf gaman að skoða þær og hugsa aftur í tímann.  Þegar komið var að bílunum kom regnskúr og enginn teygði í göngulok að þessu sinni.  Gangan var um 10 km og tók 3 klst.  9 tóku þátt.
Vala

28 maí 2015

Húshólmi - Strákar ?

Gengið frá Suðurstrandarvegi í Húshólma, þaðan með bjargbrúnum að Vestarilæk, honum fylgt að fjárhúsunum við Stráka.  Þetta er um 10 km hringur.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Núna er veðurspáin fyrir þetta svæði óhagstæð og gæti farið svo að grípa þurfi í plan B
Vala