27 júní 2015

Keilir, jónsmessuganga

8 manns mættu til jónsmessugöngnnar þetta árið í mildu og fallegu veðri.
Gangan tók rúmlega 3 tíma. Uppgönguleiðin var nokkuð laus í sér eins og venjulega en annars auðveld. Þegar upp var komið sendi sólarlagið fallega birtu yfir umhverfið og þegar smá skúr kom yfir myndaðist  regnboginn  umhverfis okkur og fjallið og ævintýralegur ljómi lýsti upp umhverfið.
Dásamleg stund.
Sigga

23 júní 2015

Jónsmessuganga

Næsta föstudag fögnum við jónsmessu með kvöldgöngu á Keili.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 21, Nesti og hlýr klæðnaður, Veðurspáin lofar góðu.
Sigga

Ítalíuferð

Áttum dásamlega daga á Ítalíu, göngu- og skoðunarferðir við Comovatn og Lugano í Sviss.
Myndin er tekin á San Salvatore fjalli við Lugano á þjóðhátiðardaginn 17. júní
Sigga

20 júní 2015

Ketilsstígur - Miðdegishnúkur

Bara 4 mættu í gönguna í dag.  Gengið var frá hverasvæðinu við Seltún eftir Ketilsstíg framhjá Arnarvatni og fram á vesturbrún Sveifluhálsins og þar var horft yfir Ketilinn sem stígurinn dregur nafn sitt af, þarna er mjög gott útsýni yfir Móhálsadalinn.  Allir voru sammála um að ganga á Miðdegishnúk (392 m) og ekki vorum við svikin af útsýninu þar.  Það er alveg magnað að ganga um Sveifluhálsinn, mjög hrikalegur víða og ýmist algjör auðn eða grösugir balar.  Veður var með ágætum, hægviðri og hlýtt, en smá væta af og til.  Gangan reyndist 11 km og tók 4 tíma.
Vala

18 júní 2015

Ketilstígur

Gengið frá Seltúni við Kleifarvatn um Ketilstíg upp í Sveifluhálsinn og þar genginn hringur.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Vala

15 júní 2015

Dásamlegt veður á Smalaholti

5 Fjallafreyjur fengu aldeilis gott veður í göngunni í dag.  Gengið var frá Vífilstaðavatni yfir á Smalaholt og skógarstígum fylgt upp á háhæðina (125 m) þar er útsýnisskífa og frábært útsýni.  Allur fjallahringur blasti við okkur og var Snæfellsnesið mjög skýrt og flott.  Rétt við skífuna er konumynd rist í klöppina. Af Smalaholtinu gengum við að útvistarsvæðinu við Sandahlíð og þaðan niður að Vífilstaðavatni, en heldur var torfært þar á kafla, en alltaf má finna leið.  Eftir tveggja tíma göngu fengum við okkur svo langþráðan sopann.
Vala

11 júní 2015

Smalaholt

Gengið frá Vífilstaðavatn um stíga skógræktarinnar á Smalaholti.  Mæting á malbikaða bílastæðinu við vatnið kl. 9.  Nesti.
Vala


06 júní 2015

Góður dagur á Skógfellavegi

Skógfellavegur er mjög skemmtileg gönguleið, fjölbreytt gönguland og fallegt umhverfi.  Lagt var upp frá spennustöðinni við Voga og endað við íþróttasvæðið í Grindavík, vegalengdin mældist 17 km og tók tæpa 6 tíma.  Veður var með ágætum og kunnum við vel að meta það eftir það sem á undan hefur gengið. 13 gengu í dag og voru allir brattir að leiðarlokum.  Takk fyrir samveruna.
Vala

04 júní 2015

Skógfellavegur

Gengin gömul þjóðleið milli Voga og Grindavíkur um 15 km löng.  Ætla má að gangan taki 5-6 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Dagsferð.  Nesti.  2 í bíl.
Núna lítur vel út með veður.
Vala

02 júní 2015

Helgafellið..

..tók vel á móti okkur í dag, vindur hægari en í bænum og sól og blíða á toppnum.  Alveg ljómandi fínt.
Vala