27 september 2014

Ástjörn - Hvaleyrarvatn - Gráhelluhraun

Frá Ásvöllum var gengið að Ástjörninni og meðfram henni, um Hádegsiskarð yfir á Vatnshlíðina, en þaðan er mjög fallegt útsýni yfir Hvaleyrarvatnið og fjallahringinn.  Hvítir fjallatoppar sýndu fyrstu merki um komandi vetur. Komið var við í Vatnshlíðarlundi á leið okkar yfir í Gráhelluhraunið,  þar sem við fengum okkur nesti í glampandi sólskini.  Margt ber fyrir augu í skóginum í Gráhelluhrauni og gaman að fara þar um. Frá Hlíðarþúfum gengum við um hlíðar Ásfjallsins og lokuðum hringnum eftir tæplega 3 klst. og ca 9 km göngu í ljómandi góðu veðri.  Þegar við settumst inn í bílana kom hellidemba, svo heppnin var aldeilis með okkur.  7 mætt í dag.
Vala





25 september 2014

Ástjörn-Hvaleyrarvatn-Gráhelluhraun

Genginn hringur frá Ásvöllum. Áætlaður göngutími um 3 klst.  Mæting á malarstæðinu bak við Haukahúsið, Ásvöllum kl. 10.  Nesti.
Vala

20 september 2014

Grænavatnseggjar

Það var aldeilis gott að ganga í dag, logn, þurrt og milt.  Skyggni var ekki gott þar sem mikil móða var í lofti sem þó sveipaði landslagið mikilli dulúð.  Gengið var frá Lækjarvöllum með enda Djúpavatns og á Grænavatnseggjar þar sem Sogin í allri sinni fegurð blasa við.  Nestið fengum við niður við Grænavatnið og gengum síðan meðfram því og yfir á einn hnúk Fíflavallafjalls þar sem mikið er af fallegum bergmyndunum.  Í brekkunni á niðurleið var þvílíkt magn af stórum krækiberjum að erfitt var að halda áfram. Fegurðin á þessum slóðum er alveg hreint mögnuð.   Gangan tók um 3 1/2 klst og var tæplega 8 km löng.  14 mætt í dag.
Vala




18 september 2014

Grænavatnseggjar

Næsta laugardag verður farið á Grænavatnseggjar við Djúpavatn.  Gengið verður frá Lækjarvöllum.  Fórum þessa göngu í lok ágúst í fyrra og sjá má feril af fyrirhugaðri gönguleið á myndasíðunni okkar.  Hálfsdagsferð.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala


13 september 2014

Og sólin skein!

Ákveðið var að fara ekki í Dauðadalina að þessu sinni, heldur var gengið á Þorbjörn.  Upp Gyltustíg á toppinn og síðan um hina mögnuðu Þjófagjá, skoðað hvar Camp Vail stóð á stríðsárunum og niður á Baðsvelli þar sem við nutum nestisins baðaðar í sólskini.  Þaðan gengum við Orkustíg að Bláa lóninu og svo til baka og áfram milli hrauns og hlíðar vestan við Þorbjörn.  Alltaf er jafngaman að ganga á Þorbjörn, landslagið þar er alveg stórkostlegt og fer hugarflugið á fullt, álfar og tröll út um allt.  Veður var með besta móti en þó var móða í lofti og skyggni því ekki eins gott og við hefðum viljað.  5 Fjallafreyjur gáfu sér góðan tíma til að skoða, njóta og mynda og tók gangan rúma 3 tíma.
Vala

11 september 2014

Óvissuferð

Ekki verður gengið í Dauðadali á laugardaginn eins og til stóð, heldur verður farið annað. Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10. Nesti.
Vala

06 september 2014

Klifsholt - Smyrlabúð

Gengið var frá Klifsholti yfir Smyrlabúð að Gjármótum (mótum Búrfells-og Selgjár) og þaðan til baka eftir reiðstígnum að Klifsholti og þar upp á topp.  Afar víðsýnt er af báðum þessum hæðum en útsýni var ekki gott, greinilega víða úrkoma í nágrenninu en við sluppum þó alveg.  Aðeins er farið að bera á haustlitum þó í litlu mæli sé.  Kaffið fengum við okkur í Actavislundinum.  3 mættar og tók þetta rúmlega 2 klst.
Vala



04 september 2014

Ath. kl 10

Næsta laugardag verður genginn hringur frá Klifsholti við Kaldárselsveg, farið verður yfir Smyrlabúðina og að Búrfelli.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala

Óskum Austurríkisförunum innilega góðrar ferðar og góðrar heimkomu.

02 september 2014

Helgafellið

Síðasta ganga Fjallafreyja á Helgafellið þetta árið var ósköp ljúf, milt og gott veður og birtan mjög falleg.  5 mættar.
Vala