30 maí 2018

Garðaholt-Gálgaklettar

Næsta laugardag göngum við frá Garðaholti að Gálgaklettum í Gálgahrauni. Siðan er gengin falleg strandlengjan að Eskinesi að bílastæði viðHraunholtsbraut. Þaðan göngum við yfir Gálgahraunið sem er með fallegum klettamyndunum eftir götuslóða sem kallaður er Fógetagata.
Þetta eru ca 7 km og tekur 3 tíma.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 (eða við Garðaholt kl. 9:10)
Veðurspáin lofar góðu.
Sigga
Gálgaklettar

Gálgahraun

Séð heim að Bessastöðum

26 maí 2018

Hvaleyrarvatn - Gjár

Veður reyndist mun skaplegra en ætla mátti, hægur vindur og milt, það rigndi látlaust en þó ekki af jafn miklum krafti og reiknað var með.  Gengið var frá Hvaleyrarvatni, meðfram Stórhöfða að "endalokum" Kaldárinnar, alltaf jafn magnað að sjá allt þetta vatn hverfa skyndilega niður í hraunið.  Síðan var farið um Gjárnar og hringnum lokað við vatnið.  Gaman var að fylgjast með líflegu fuglalífinu og sjá hvað gróðurinn er allur að taka við sér, mikil gróðurangan var í lofti.  Tók gangan um 3 1/2 klst og mældist 10 km.  4 mættu.
Vala






24 maí 2018

Plan B

Ekki lítur vel út með veðrið næstkomandi laugardag og verður því ekki farið út á Hafnaberg, heldur munum við ganga ca 10 km hring frá Hvaleyrarvatni.  Sjáum hvar Kaldáin hverfur ofan í hraunið og förum um Gjárnar flottu.  Mæli með góðum skjólfatnaði.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala
Gengið um Bugar

Í Gjám

19 maí 2018

Rigningarganga

Mikið rigndi og á bakaleiðinni blés hann hressilega, er 7 gengu frá Hvassahraunsbyggðinni með ströndinni að hinum fallegu Dulatjörnum.  Þetta reyndist hin fínasta ganga þrátt fyrir veðrið, en náttúrufegurðin þarna hefði jú notið sín betur í bjartara veðri. Gangan tók 3 klst og mældist 7,5 km.
Vala

Ef maður er vel búinn, eru manni allir vegir færir

Hluti Hvassahraunsbyggðarinnar

Við Dulatjarnir

Nesti við Dulatjarnir

7,5 km

17 maí 2018

Hvassahraun

Næsta laugardag liggur leiðin með strönd Hvassahrauns í átt að Dulatjörnum. Ætla má að 3-4 tímar fari í gönguna.  Veðurspáin er heldur óspennandi og gangi hún eftir er mögulegt að stytta gönguna, þar sem gengið verður fram og til baka. Farið er um hraun og strönd og þar af leiðandi er gönguland frekar gróft.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala


13 maí 2018

Mosfell og Leirvogsárgljúfur

Hann var ljúfur göngudagurinn okkar á laugardaginn, þegar við 12 lögðum af stað á Mosfellið í Mosfellsdal. Veður milt og gott og sólin fór að skína þegar leið á gönguna. Gengið var á topp Mosfellsins, 282 mys, síðan niður aftur og genginn hringurinn í kringum Mosfellið. Á þeirri leið gengum við meðfram hinum fallegu Leirvogsárgljúfrum, þar sem Leirvogsáin rennur og endar í Leiruvognum. Gangan tók 4 tíma með 2 nestiststoppum og nokkrum útsýnisstoppum og var 9.5 km.
Fallegur dagur í fallegu umhverfi
Sigga
Við Mosfellskirkju

Leirvogsárgljúfur

10 maí 2018

Mosfell í Mosfellsdal

Göngum á Mosfell í Mosfellsdal næsta laugardag.
Fellið er 282 mys og auðvelt uppgöngu. Lagt af stað frá Mosfellskirkju, gengið á toppinn, síðan niður og umhverfis Mosfellið og meðfram Leirvogsárgljúfri.
Þetta er ca 9 km og ca 230 m hækkun og tekur 3-4 tíma með nestispásu.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 og/eða við Krónuna í Mosó kl. 9:20
Veðurspáin er góð.
Sjáumst í sólskinsskapi
Sigga
Mosfellsdalur og Mosfell
Leirvogsá
Á toppi Mosfells 

05 maí 2018

Dásamleg heimsókn

17 gengu eftir stígum Garðabæjar, um íbúðagötur og strandstíginn í Sjálandshverfinu um 8 km.  Listakonurnar og Fjallafreyjurnar Auður Vésteinsdóttir og Sigríður Ágústsdóttir tóku á móti okkur í vinnustofu sinni í Lyngásnum með góðum veitingum og kynningu á ferli sínum og verkum.  Þar bættust 6 í hópinn.  Þökkum við þeim kærlega fyrir móttökurnar.
Vala



03 maí 2018

Sjáland

Næstkomandi laugardag verður genginn hringur eftir göngustígum í Garðabæ, farið verður um Sjálandshverfið og vinnustofur listamanna í Lyngásnum heimsóttar.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala