19 desember 2017

Þorláksmessa

N.k. laugardag, þorláksmessu ætlum við að hittast við Hafnarfjarðarkirkju kl. 10, fá okkur göngu og skella okkur svo einhvers staðar inn og fá okkur kaffi.
Vala

25 nóvember 2017

Gaman, gaman

22 Fjallafreyjur mættu við dælustöðina og gengu í 1 klst um bæinn í fínu vetrarveðri.  Að göngu lokinni var okkur boðið í kaffi hjá Maddý og þar bættust 8 í hópinn.  Kærar þakkir elsku Maddý fyrir okkur, þetta var virkilega gott og gaman.
Vala



23 nóvember 2017

ATH BREYTING

Í þetta sinn hittumst við ekki við Kænuna n.k. laugardag heldur við DÆLUSTÖÐINA við Vesturgötu, gegnt Bungalowinu. Sama tímasetning.  Göngum að venju í ca klukkutíma og förum síðan í kaffi á góðum stað.
Vala

19 nóvember 2017

Lillý 70 ára

Glaðlynda og jákvæða Fjallafreyjan Lillý er sjötug í dag.  Fjallafreyjur senda henni innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Lillý og Steini á góðri stundu við Borgarvirki

Á Ítalíu

10 nóvember 2017

Göngutúr og jólaföndur

Mæting við Herjólfsgötu 36 kl. 10 næsta laugardag og gengið í klukkutíma. Síðan jólaföndur og kaffi að okkar hætti kl. 11. Verð 1500 kr.
Sjáumst.
Sigga

12 október 2017

Kænan

Kænugöngur hefjast næsta laugardag kl. 10 og verða á hverjum laugardegi fram í april 2018.
Gengið í ca klukkutíma og síðan kaffi og rúnstykki í Kænunni Hf. á eftir.
Sigga

07 október 2017

Þorlákshöfn

Við áttum góða
heimsókn til Þorlákshafnar í dag.
24 Fjallafreyjur fóru af stað kl. 10 frá Hafnarfirði og voru komnar til Þorlákshafnar kl. 11, þar sem við hittum fararstjórann okkar, hana Ágústu Ragnarsdóttur. Hún leiddi okkur skemmtilega leið að vitanum og á bergið, þar sem brimaldan dundi á klettunum. Stórkostleg sjón.
Eftir gönguna var farið á Svarta Sauðinn og þar tóku Kata og Tony á móti okkur með gæðalegum mat.
Þar á eftir var gengið um bæinn, skrúðgarðurinn heimsóttur og leikskólinn, en lóðin þar var sérdeilis skemmtileg og falleg. Þar á eftir heimsóttum við íþróttahúsið og sundlaugina en þar er glæsileg aðstaða fyrir bæjarbúa og gesti. Síðan var gengið að kirkjunni og þaðan að kaffi og listahúsinu Hendur í Höfn. Þar ttók Dagný húsráðandi á móti okkur og sagði okkur sína sögu og kaffihússins. Þar var margt skemmtilegra muna og glerlistar og við fengum okkur kaffi og þá bestu súkkulaði köku sem ég hef fengið.
Góðum degi lauk þar um kl. 15:30 og við sluppum við rigningu en nokkur vindur var sem kom ekki að sök.
Takk fyrir samveruna.
Sigga

Ps. Þetta var seinasta skipulagða ganga ársins og næsta laugardag verður gengið frá                 Kænunni í Hf. kl. 10
Hópurinn í upphafi göngu
Ágústa við minnismerki Auðar djúpúðgu

28 september 2017

Þingvellir í haustlitum

Næsta laugardag verða Þingvellir heimsóttir.
Þórunn leiðir för um göngustíga svæðisins og við njótum haustlitanna.
Nesti, hálfsdagsferð.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9
Sigga
Á blautum degi við Öxarárfoss 2014

23 september 2017

Gráhelluhraun

Þrátt fyrir óspennandi veður mættu 8 til göngu í Gráhelluhrauninu.  Haft var á orði hvað við fyndum lítið fyrir veðrinu, þó rigndi allan tímann, en vindur var minni en búist var við.  Genginn var hringur eftir göngustíg og reiðstíg.  Dáðumst að litum haustsins, skoðuðum minnismerki um skógræktarfrömuði, tóftir fjárskjóls við Gráhellu og gamla vatnsból Hafnfirðinga.  Nutum svo nestisins í útikennslustofu í einu rjóðrinu, en þar eru bekkir og þak yfir sem kom sér vel því þegar við sátum þarna herti hressilega á regninu.  Gangan með nestisstundinni tók 1 1/2 tíma.
Vala

Við minnisvarða skógræktarfrömuða

21 september 2017

Plan B

Heimsókninni í Haukadalinn er frestað til næsta árs vegna mjög slæmrar veðurspár á þeim slóðum.  Heldur er spáin skárri á heimaslóð og verður því genginn hringur í Gráhelluhrauni frá fjárhúsinu við Kaldárselsveg.  Gengið verður eftir göngustíg og reiðstíg.  Ætla má að gangan með nesti í góðu rjóðri taki 1 1/2 til 2 tíma.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala

Í þungbúnu veðri horfir maður á það sem er nær

Í Gráhelluhrauni í vikunni

16 september 2017

Hrauntunguskógur

Þar sem veðurspáin boðaði slagveðursrigningu á Þórustaðastíg var samþykkt á plani uppástunga um að fara heldur í skjólið í Hrauntunguskógi, þar átti líka að vera mikið minni rigning.  Svo reyndist vera, aðeins dropar í lofti og skjólið gott þrátt fyrir mikinn þyt í trjánum.  Við okkur blasti mikil litadýrð og þótti okkur gaman að troðast um þröngar sprungur og bara njóta þess sem náttúran bauð uppá.  Tók gangan með nestisstoppi um 2 klst.  5 voru mætt.
Vala


14 september 2017

Þórustaðastígur

Næsta laugardag verður gengið eftir  Þórustaðastíg á Reykjanesi.  Gengið verður frá Vigdísarvöllum yfir Núpshlíðarhálsinn að gígnum  Moshól og svipuð leið til baka.  Þórustaðastígur liggur frá Vigdísarvöllum framhjá Keili að Þórustöðum í nágrenni Kálfatjarnar, en við munum einungis taka hluta leiðarinnar.  Ætla má að gangan verði um 8 km og frekar aflíðandi hækkun um 200 m.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Vala

Þórustaðastígur við Vigdísarvelli

Gígurinn Moshóll handan Núpshlíðarháls

09 september 2017

Friður og fegurð.

14 Fjallafreyjur hófu göngu dagsins frá Lágafellskirkju í yndislegu haustveðri. Gengið var áleiðis að Hafravatni, sem var spegilslétt og fallegt. Gengum uppá Lala, sem er 245 mys og fram á brúnir Hafrahlíðar. Þaðan var útsýnið fagurt og frítt í allar áttir. Þar sem veðrið var svo gott og enginn að flýta sér lengdum við gönguna aðeins og gengum uppá Reykjaborg, 288 mys. Þar var ný sjónskífa sem var vel stúderuð. Göngu lauk síðan við Lágafellskirkju 4 og hálfum tíma seinna og vegalengdin var ca. 14 km.
Góður dagur með góðum göngufélugum.
Á Hafrahlíð, Hafravatn í baksýn
Á Lala

Á Reykjaborg


07 september 2017

Lágafell-Hafravatn-Lali

Næsta laugardagsganga verður frá Lágafellskirkju. Gengin vegaslóð að Hafravatni í gegnum skógrækt Mosfellsbæjar og uppá Lala,(245mys.)  sem flugdrekamenn nota mikið til svifflugs.
Á leið okkar verða nokkrar berjaþúfur sem vert er að staldra við.
Ca. 11 km ganga og tæpl. 200 m hækkun.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9, eða við Lágafellskirkju kl. 9:20.
Nesti
Sigga
Hafravatn

05 september 2017

Helgafellið

Þá er Helgafellsgöngum Fjallafreyja lokið þetta árið.  7 Fjallafreyjur gengu á fjallið í dag.  Lítils háttar úrkoma í byrjun og þoka á toppnum, engu að síður fínasta ganga.  Gengum "gömlu leiðina" upp, en  niður "gilið".
Vala


02 september 2017

Hressandi

10 Fjallafreyjur og 1 Fákur mættu í gönguna í dag.
Gengum frá bílastæðinu uppá Kögunarhól í Esjuhlíðum og þaðan eftir hlíðinni og niður vegaslóða niður hjá Mógilsá. Nokkrar berjaþúfur urðu á leið okkar sem voru vel nýttar. Falleg leið.
Hressandi gola og þurrt í byrjun en nokkur rigning síðasta hálftímann.
6.7 km og  tveir og hálfur tími.
Sigga

31 ágúst 2017

Esjuhlíðar-Kögunarhóll

Næsta laugardag göngum við upp Esjuhlíðar (ca 300 m hækkun) og beygjum af leið við Kögunarhól og göngum eftir vegaslóða niður að Mógilsá. Þetta er uþb. 5 km hringur.
Nesti.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9:20.
Sigga
Á leið upp Esju árið 2005

27 ágúst 2017

Reykjanesferð

Það var rúmlega 40 manna hópur sem lagði af stað í ferð um Reykjanesið.
Fararstjóri ferðarinnar var Reynir Sveinsson frá Sandgerði og var hann hafsjór af fróðleik og skemmti
sögum sem hann miðlaði okkur á sinn skemmtilega hátt.
Veðrið var ekki uppá sitt besta, rok og rigning en þornaði upp um miðjan dag.
Fyrsti viðkomustaður var hverasvæðið við Seltún, síðan var farið á Krísuvíkurberg. Eftir það var gengið niður að Selatöngum og merkar minjar skoðaðar þar. Ekið var um Hópsnesið, en þar eru margar minjar um sjóslys og að Eldvörpum, sem er mikið háhitasvæði. Brimketill var skoðaður og var þar tilkomumikið brimið. Eftir það var Gunnuhver skoðaður og ekið niður að Reykjanesvita.
Ekið var í gegnum Hafnir og farið í gegnum gamla Nato varnarsvæðið. Margar sögur sagði Reynir okkur frá þessum stöðum.
Að lokum var stoppað í Hvalsneskirkju, þar sem fararstjórinn sagði okkur sögu kirkjunnar og Hallgríms Péturssonar, sem var þar fyrstu prestsár sín.
Að endingu fengum við góðan kvöldverð í Röstinni sem er við Garðskagavita.
Eftirminnilegur og skemmtilegur dagur með góðum ferðafélugum.
Sigga
Við Seltún
Á Krísuvíkurbergi
Á Selatöngum
Við Gunnuhver

19 ágúst 2017

Sól og dýrðardásemd....

......var hjá okkur í dag, 11 sem mættum í gönguna í úr Dyradal og inn í Marardal.
Fjölbreytt landslag, litríkt og heillandi, dalir, hryggir og klettabelti urðu á leið okkar og útsýnið dásamlegt. Marardalurinn tók á móti okkur grænn og fallegur og eyddum við dágóðum tíma þar í nesti og náttúruskoðun.
Að göngu lokinni var gengið um dyrnar á Dyradal og þar drukkið seinnakaffið.
Gangan tók tæpa 4 og hálfan tíma, var 12 km og uppsöfnuð hækkun um 600 m.
Sigga
Í Marardal
Þingvallavatn og Skjaldbreiður

17 ágúst 2017

Marardalur

Næsta ganga verður frá Dyradal og inn í Marardal.
Falleg gönguleið á Hengilsvæðinu, ca 8 km fram og til baka.
Hálfsdagsferð, nesti.
Áætluð heimkoma um kl. 15.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9:15.
Spáir bongóblíðu :)
Sigga
Marardalur í Hengli

Í Marardalnum

10 ágúst 2017

Nauthólsvík-Skerjafjörður

Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 eða í Nauthólsvík kl. 9:15.
Sjóðbað þær sem vilja.
Sundföt.
Nesti eða kaffi á Kaffi Nauthól.
Sigga
Á Kaffi Nauthól

07 ágúst 2017

Svava 60 ára

Flotta Fjallafreyjan Svava Gústavsdóttir er 60 ára í dag 7. ágúst.  Fjallafreyjur senda henni innilegar hamingjuóskir í tilefni tímamótana.

Á Berghylsfjalli júlí 2013
Í Sumarkinn júlí 2017

03 ágúst 2017

Búrfellsgjá

Næsta laugardag verður gengið í Búrfellsgjá.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við upphafsstað göngustígs í gjána kl. 9.10.
Vala

Á Búrfellinu í júní 2009

01 ágúst 2017

Helgafellið

Bara 5 Fjallafreyjur mættu í gönguna á Helgafellið í dag, þrátt fyrir frábært veður.  Fórum gilið í báðum leiðum.
Vala


29 júlí 2017

Sumardagur

10 Fjallafreyjur mættu í göngu dagsins í Mosfellsbæ. Veðrið lék við okkur þótt nokkur vindur hafi blásið um tíma. Sólin lét svo sjá sig þegar leið á gönguna.
Eftir gott nestisstopp í Sumarkinn var hringnum lokað og komið í bílana kl. 13:30.
Göngu tími 4 klst og  9-10 km.
Góður dagur og allar alsælar :)
Fjörugar Fjallafreyjur

27 júlí 2017

Æsustaðafjall-Reykjafjall-Sumarkinn

     Næsta laugardag ljúkum við hringnum sem við náðum ekki að klára í fyrra.
Gangan hefst í Skammadal í Mosó og gengið á Æsustaðafjall, þaðan á Reykjafjall og síðan niður i Sumarkinn þar sem við drekkum nestið okkar.
Gönguhækkun ca 200 m. Þægileg ganga, ca 10 km hringur.
Þetta verður sannkölluð sólarganga skv. veðurspánni :)
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 og við Krónuna í Mosó kl.9:20.
Nesti.
Sigga
Á Reykjafjalli
Í Sumarkinn

22 júlí 2017

Stardalshnúkur og Stiftamt

Þrátt fyrir þokusúld og smá blástur mættu 6 til göngu í dag.  Gengið var frá bænum Stardal á Stardalshnúk (373 m.y.s.) og þaðan yfir á Stiftamt og síðan niður að húsarústunum við Ríp þar sem nestið var borðað.  Til baka var gengið eftir vegarslóða.  Reyndist gangan 6,4 km löng og tók rúma 3 tíma.  Okkur til mikillar undrunar sýndi GPS tækið uppsafnaða hækkun um 470 m, þeir telja fljótt metrarnir þegar verið er að fara upp og niður á víxl. Fínasta ganga en útsýnið hefði mátt vera meira, en þarna er margt að sjá í góðu skyggni.  T.d. má sjá hvernig Leirvogsáin rennur úr Leirvogsvatninu í gljúfrið sem Tröllafoss rennur um, og ekki má gleyma öllum fjöllunum þarna í kring.
Vala

Lóðréttur veggur Stiftamts, sem betur fer er greiðfærar hinu megin.

Mumma, Kristín, Vala, Gógó og Kristín.  Kalli myndaði.

20 júlí 2017

Stardalslhnúkur

Ganga hefst nálægt bænum Stardal og verður gengið á Stardalshnúk (gönguhækkun um 200 m) og Stiftamt.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Hálfsdagsferð.
Vala

Útsýni af Stardalshnúk

Stiftamt og Stardalshnúkur (Skálafell kíkir uppfyrir)

15 júlí 2017

Hettuvegur

Byrjað var á þvi að skoða umhverfi Krýsuvikurkirkju, greinilegt er að undirbúningur fyrir komu nýrrar kirkju er hafin, en hlaðinn hefur verið nýr grunnur.  Síðan hófst gangan við upphafsskilti Hettuvegar, farið yfir Krýsuvíkurmýrar, en þar eins og víðar í göngunni var allt mikið blautara en fyrir nokkrum dögum síðan, enda mikið rignt upp á síðkastið.  Farið var upp í nýhristan Sveifluhálsinn (jarðskjálftar í gærkvöldi) um Rauðhól og þaðan að Sveiflu og Hettu.  Ekki hentaði að nota fyrirfram valin útsýnis nestisstað, þar sem það gerði sudda akkúrat þegar þangað var komið.  Við fundum nú samt annan góðan stuttu síðar þegar stytt hafði upp.  Þegar við nálguðumst Arnarvatnið beygðum við af leið og skoðuðum hverasvæðið við Hattinn, en þá kom hellidemba og meira að segja hagl smástund.  Skoðuðum nú samt svæðið og litum yfir vatnið áður en haldið var niður Ketilstíginn að Seltúni í sól.  Þetta var mjög fjölbreytt ganga bæði hvað varðar umhverfi og veður.  7 tóku þátt og reyndist gangan 8 km, hækkun um 200 m og tók 4 tíma.  Mjög skemmtileg ganga með góðum göngufélögum.
Vala

Við upphaf göngu

Rennandi blaut við enda Hettuvegar, en stuttu síðar stytti upp

14 júlí 2017

Hettuvegur í Sveifluhálsi

Hettuvegur er stikuð leið (ath. ekki stígur) frá Krýsuvíkurkirkju að Ketilstíg við Arnarvatn.  Skiljum eftir bíla við Seltún svo ekki þurfi að ganga til baka.  Skoðað verður hverasvæði við Hatt áður en Ketilstígur verður genginn í Seltún.  Þetta er um 8 km ganga og um 200 m hækkun.  Mæting við Iðnskólann í Hafnrfirði kl. 9.  Áætluð heimkoma milli kl. 13 og 14.  Góðir skór, stafir og nesti.
Vala

Við Krýsuvíkurkirkju 2012
Við Hettu