31 júlí 2015

Heiðmörk

Mæting við gönguhliðið kl. 9.  Kaffi á brúsa.

Einnig hefðbundin mánudagsganga frídag verslunarmanna og Helgafell á þriðjudag.
Vala

25 júlí 2015

Enn einn frábær dagur á göngu.

Það var aldeilis flottur dagurinn í dag þegar gengið var á Melahnúk, bjart, milt og logn megnið af tímanum.  Melahnúkur lætur lítið yfir sér þar sem hann kúrir í skjóli stóra bróður Dýjadalshnúks sem gnæfir yfir, en hann býður þó upp á frábært útsýni og þá sérstaklega flott í svona björtu veðri eins og í dag.  Gengið var upp Þjófaskarð og lækjum fylgt og fossar skoðaðir.  Þegar upp er komið blasir Blikdalurinn við.  Nestis var notið í hlíðum hnúksins og síðan var haldið niður á við og þá farin heldur beinni leið og komið niður skarð rétt hjá bílunum.  Gangan var um 6 km löng með tæplega 500 m hækkun og tók rúmlega 3 1/2 klst.  13 tóku þátt.
Vala



23 júlí 2015

Melahnúkur (540 m) í Kjós

Gengið verður upp Þjófaskarð við mynni Miðdals.  Gönguhækkun tæpir 500 m og ætla má að gangan taki um 3 klst.  Gott að vera vel skóaður og jafnvel með legghlífar.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Nesti.
Vala
Útsýni frá hlíðum Melahnúks

18 júlí 2015

Náttúran er dásamleg..

.. það sannaðist enn einu sinni í dag.  Gengið var frá Ölkelduhálsi með Hrómundartind til annarar handar og Hengilinn með sínar litríku hlíðar til hinnar.  Framundan blasti við fjallahringurinn við Þingvallarvatn og nágrenni.  Þegar komið var í Seltungur var nestis og veðurblíðu notið og síðan haldið með hinni hlið Hrómundartinds og var þá farið eftir hinu magnaða Tindagili. Það er mikil upplifun að fara þar um.  Gengið var eftir fallegum læk að Kattartjörn efri og síðan haldið í átt að Ölkelduhálsi.  Rifjuð var upp gangan sem við fórum í fyrra á Kyllisfell og að Kattartjörnum, en hún er eftirminnileg vegna fegurðarinnar á þessum slóðum.  Horfðum m.a. yfir Reykjadalinn og kíktum á hverina sem eru við gönguleiðina að bílunum.  Hringnum var svo lokið eftir ca 5 tíma göngu.  11 nutu dagsins.
Vala

16 júlí 2015

Umhverfis Hrómundartind

Genginn verður ca 12 km hringur frá Ölkelduhálsi umhverfis Hrómundartind.  Farið verður eftir hinu stórfenglega Tindagili.  Ætla má að gangan taki 4-5 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9.15.  Nesti.  Ríflega hálfsdagsferð.
Vala

12 júlí 2015

Á slóðum berklasjúklinga

Í ljómandi góðu veðri gengu 11 Fjallafreyjur og 1 Fákur á slóðum berklasjúklinga sem dvöldu á Vífilstöðum á árum áður.  Gengið var frá gönguhliðinu við Heiðmörk, komið við í Maríuhellum á leið okkar yfir að veginum með Urriðaholtinu, þaðan gengum við Berklastíg, sem var útivistarstígur sjúklinganna, yfir að Vífilstöðum.  Þarna er mjög fallegt samspil hrauns og gróðurs.  Frá Vífilstöðum var gengið að vatninu og kringum það, síðan héldum við upp Heilsustíginn að vörðunni Gunnhildi.  Að komast þangað án þess að hósta upp blóði var merki þess að sjúklingarnir hefðu náð nægum bata til að útskrifast. Þarna eru ýmsar gamlar minjar, vatnstankur fyrir hælið og skotbyrgi frá stríðsárunum, en afar víðsýnt er þarna framan í hæðinni.  Aftur var farið niður að spegilsléttu vatninu og þaðan yfir í Heiðmörkina því maginn var farinn að kalla á nestið sem beið í bílnum.  Gangan tók um 2 1/2 klst. með kaffinu.
Vala





09 júlí 2015

Berklastígur í Vífilstaðahrauni

Berklastígur er gömul gönguleið í hrauninu milli Vífilstaða og Urriðaholts, nú hefur hún verið stikuð.  Genginn verður hringur frá hliðinu.  Mæting við gönguhliðið í Heiðmörk kl. 9.  Nesti.
Vala
Við Urriðaholtsenda Berklastígs

05 júlí 2015

Vörðufell

Í dásemdarveðri gengum við 20 Fjallafreyjur og Fákar á Vörðufellið. Landslag fjallsins er fjölbreytt og fallegt með fallegu vatni; Úlfsvatni i miðju og djúpu gili sem skerst inn i fjallið. Útsýnið var dásamlegt til allra átta.
Genginn var 12 km hringur og tók gangan 5 klst og 20 mín með 2 nestisstoppum og nokkrum útsýnisstoppum.
Eftir göngu var Ólafsvallarkirkja á Skeiðum skoðuð.
Góður og skemmtilegur dagur.
Sigga
A Vörðufelli

02 júlí 2015

Vörðufell

Næsta laugardag er dagsferð austurfyrir fjall. Þá göngum við á Vörðufell (391 mys) frá bænum Fjalli á Skeiðum. Göngutími 3-4 tímar og ca 300 m hækkun. Þægileg ganga.
Skoðum Ólafsvallarkirkju á Skeiðum í leiðinni.
Veðurspáin er glimmrandi góð.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9, eða Rauðavatn kl. 9:15. Einnig er hægt að hittast við Vorsabæjarafleggjarann við Brautarholt á Skeiðum kl. 10:15. Eg verð þar á rauðum bíl.
Nesti, dagsferð.
Sigga
Vörðufell í fjarska, myndin er tekin af Galtafelli í Hreppum