18 júlí 2015

Náttúran er dásamleg..

.. það sannaðist enn einu sinni í dag.  Gengið var frá Ölkelduhálsi með Hrómundartind til annarar handar og Hengilinn með sínar litríku hlíðar til hinnar.  Framundan blasti við fjallahringurinn við Þingvallarvatn og nágrenni.  Þegar komið var í Seltungur var nestis og veðurblíðu notið og síðan haldið með hinni hlið Hrómundartinds og var þá farið eftir hinu magnaða Tindagili. Það er mikil upplifun að fara þar um.  Gengið var eftir fallegum læk að Kattartjörn efri og síðan haldið í átt að Ölkelduhálsi.  Rifjuð var upp gangan sem við fórum í fyrra á Kyllisfell og að Kattartjörnum, en hún er eftirminnileg vegna fegurðarinnar á þessum slóðum.  Horfðum m.a. yfir Reykjadalinn og kíktum á hverina sem eru við gönguleiðina að bílunum.  Hringnum var svo lokið eftir ca 5 tíma göngu.  11 nutu dagsins.
Vala

Engin ummæli:

Skrifa ummæli