30 júní 2016

Selfjall

Næsta laugardag göngum við á Selfjall. Lagt er af stað í gönguna frá Waldorfsskólanum við Lækjarbotna. Selfjall er um 270 m hátt en hækkun er ca 170 m.
 Gangan tekur um það bil 2 klst.
Nesti.
 Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9:15,  þar sem ég bíð ykkar.
Sigga
Ganga á Selfjall 2009

25 júní 2016

Jónsmessugangan ..

.. varð í styttra lagi, þar sem láréttur rigningarsuddinn sá um að baða okkur upp úr "dögginni".  Ekki var gengið á Grænudyngju heldur farið eftir hrygg sem liggur í austurhlíð hennar og skoðuðum við stórkostlega klettana í hlíðum fjallsins sem urðu enn tröllslegri í suddanum.  Falleg leið sem vert væri að skoða í betra veðri.  Skyggni var nánast ekkert.  Gangan tók 1 1/2 klst og 4,4 km löng.  Í fyrsta sinn í sögu Fjallafreyja voru fleiri fákar en freyjur mætt, en mætingin var afar slök bara 3.  Við höfðum nú samt mjög gaman af og vorum bara kát í ferðarlok.
Vala

Nýbúin að sporðrenna nestinu og tilbúin að snúa við.

22 júní 2016

Grænadyngja og Heiðmörk

Næstkomandi föstudagskvöld verður farin jónsmessuganga á Grænudyngju, gengið verður frá Djúpavatni.  Áætlaður göngutími um 2 1/2 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 21.  Nesti.

Á laugardag verður gengið í Heiðmörk.  Mæting við gönguhliðið kl. 9.  Kaffi á brúsa.

Vala

Á Grænudyngju á jónsmessu 2011

18 júní 2016

Hugleiðsluganga

Það blés svo hraustlega í dag að erfitt var að halda uppi samræðum á göngunni, svo aldrei þessu vant var að mestu gengið í þögn.  Hlýtt var þó og þurrt.  Gengið var frá Valahnúkum yfir að Kringlóttugjá sem er stór og glæsileg, fallegir klettar, lyng og kjarr, þaðan var gengið á Búrfellið en litið staldrað við þar vegna vinds.  Til baka var haldið um Helgadal og kíkt á nokkra hella.  Í minni Rauðshelllis var fínt skjól fyrir góða nestis- og spjallpásu.  Leiðin var 6,6 km löng og tók 2 1/2 klst.  5 mætt.
Vala

Hressar en vindbarðar í göngulok

16 júní 2016

Kringlóttagjá o.fl.

Næsta laugardag verður genginn hringur frá Kaldárseli um Kringlóttugjá, Búrfell og Helgadal.  Áætlaður göngutími 2-3 klst. Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.
Vala

Horft yfir Kringlóttugjá frá Búrfelli

11 júní 2016

Hagavíkurlaugarnar..

.. sviku okkur ekki með fegurð sinni.  Gönguleið þessi er samfelld litasynfónía, en komið var við á háhitasvæðunum Nesjalaugum og Köldulaugagili.  Einnig eru mjög skemmtilegar myndir í berginu. Veður var með ágætum en skyggnið ekki nógu gott.  Gangan var tæplega 10 km löng og tók tæpa 4 1/2 klst.  17 mætt.
Vala




09 júní 2016

Hagavíkurlaugar

Næsta laugardag verður gengið frá Konungsbrún við Nesjavallaleið um Nesjalaugar, Köldulaugagil og Hagavíkurlaugar.  Þetta er litfögur leið í austurhlíðum Hengils og margt að sjá.  Gönguleiðin er mishæðótt en þó engin fjallganga.  Ætla má að gangan taki 4-5 klst.  Endilega takið stafina með.  Góð veðurspá.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9.15.  Dagsferð.  Nesti.
Vala

Þingvallavatn séð frá Hagavíkurlaugum.

07 júní 2016

Ljómandi gott veður ..

.. á Helgafellinu í dag og líka góð mæting.  Þegar upp var komið tóku tvær sem höfðu lagt fyrr af stað á móti hópnum með fínerís súkkulaði og var því vel tekið. 13 mætt í dag.
Vala

04 júní 2016

Dýrðardagur


Fínn dagur hjá okkur  sem mættum í göngu dagsins frá Lágafellskirkju og uppá Úlfarsfellið.
Sól skein í heiði og ekki blakti hár á höfði. Flott útsýni til allra átta. Nesti í hlíðum Lágafells.
6 voru mættir, genginn 7.5 km hringur og tók gangan rúma tvo tíma.
Yndælis dagur
Sigga

02 júní 2016

Lágafell-Úlfarsfell

Næsta laugardag tökum við okkar kvennagöngu/hlaup í Mosfellsbæ.
Göngum frá Lágafellskirkju, inn í skógræktina og upp Úlfarsfellið norðanmegin. Förum síðan niður hjá skógræktinni í Hamralíð. Þetta er góður 7 km hringur og hækkun ca, 200 m. Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða við Lágafellskirkju kl. 9:20. Tekur ca 3 tíma með keyrslu.
Nesti og bongóblíða.
Sigga