31 desember 2016

Gamlársdagur

Það var aldeilis fín síðasta ganga ársins.  Veður með miklum ágætum -1°C og bjart, smágustur í byrjun, en síðan hægviðri.  Genginn var strandstígurinn til enda og á bakaleiðinni kíktum við í kaffi á Norðurbakkanum þar sem Kænan var lokuð.  14 galvaskar og kátar Fjallafreyjur mættu í dag.
Óska öllum Fjallafreyjum og fjölskyldum þeirra gleðilegs ár og þakka allar ánægjustundirnar á árinu sem er nú að ljúka.
Vala


24 desember 2016

Jólakveðja

Kæru Fjallafreyjur og fjölskyldur.
Sendum ykkur bestu jóla- og nýjársóskir. Megi friður og kærleikur umvefja ykkur um jólahátíðina.
Bestu kveðjur
Sigga og Bjarni

17 desember 2016

Hressandi

Gengið var um Holtið í 7°C, lítilsháttar úrkomu (vart merkjanlegri) og gjólu.  Mjög hressandi ganga.  13 mættu í dag.  Næsta ganga verður á gamlársdag, þá verður lokað á Kænunni en við finnum okkur einhvern góðan stað til að fá okkur kaffi eftir gönguna, en hittumst á sama stað og venjulega.
Vala

10 desember 2016

Lúxusdagur

Það lék allt við okkur í dag.  Veðrið frábært 4°C, logn og alveg þurrt.  Gengum uppá Hamarinn og dáðumst að ljósum prýddum bænum okkar, fórum síðan Kinnarnar þvers og kruss og að lokum með Læknum  og höfninni spegilsléttri.  Þvílík fegurð.  Og ekki versnaði þetta þegar á Kænuna kom, en þar var tekið á móti okkur með þessu líka fína hlaðborði.  Frábært að byrja daginn svona vel.  20 mætt í dag.
Vala

03 desember 2016

3. des og hiti 9°C

Eitthvað rigndi nú á okkur, en hvað um það, jörð er alauð og nýttum við okkur það og gengum rösklega upp "leggjarbrjótinn".  Virkilega hressandi ganga í dag.  Eftir veitingarnar á Kænunni kíktum við á leirkeraverkstæðið Gáru og einhverjar fóru út með jólagjafir og voru bara góðar með sig.  17 mættu  í dag.  Síðasta laugardag mættu 18 og þá var gengið um bæinn og skreytingar skoðaðar.  Það sem af er vetri hefur mætingin verið mjög góð, eða frá 14-21, vonandi verður svo áfram.
Vala

19 nóvember 2016

Notaleg stund

29 mættu  í jólaföndrið á Herjólfsgötuna eftir góða göngu hjá meirihluta hópsins.
Eftir góðan kaffisopa var hafist handa við verkefnið, sem var jólaplatti og hvítur engill.
Notaleg og góð stund hjá frábærum konum.
Sigga



16 nóvember 2016

Jólaföndur

Næsta laugardag verður hið árlega jólaföndur ásamt göngu.
Mæting við Herjólfsgötu 36 Hf.  kl. 10.
Þær sem ekki ætla að ganga mæta kl. 11.
Sjáumst kátar í jólaskapi.
Sigga

12 nóvember 2016

Góð mæting

21 mættu í dag.  Gengið var kringum Ástjörn og var fróðlegt að sjá hve mikið vatn er þar um allt eftir mikla úrkomu að undanförnu.  Hiti var um 3°C og smá blástur sem maður hætti alveg að taka eftir þegar byrjað var að ganga og tala :).
Vala

29 október 2016

Ganga og afmæli

Þrátt fyrir slagveður mættu 18 Fjallafreyjur að Kænunni í dag.  Gengið var um götur bæjarins þar sem skjól var að fá og okkur til happs rigndi sáralítið á meðan á göngunni stóð.  Hitinn bara hækkaði svo við vorum vel heitar þegar við mættum í afmælið hennar Ingibjargar, þar sem 7 bættust svo í hópinn.  Ingibjörg og Gummi ásamt dætrum tóku aldeilis vel á móti okkur eins og þeim einum er lagið.  Fínar veitingar (okkur finnst svoo gott að borða :) ) og svo var sungið og spilað á gítar.  Virkilega gaman.   Kæra fjöldskylda, innilegar þakkir fyrir skemmtilega stund og flottar móttökur.
Vala

27 október 2016

Ingibjörg sextug

Fjallafreyjur óska þessari flottu konu innilega til hamingju með sextíu árin.
Hún býður í kaffi eftir Kænugöngu næsta laugardag kl. 11
Ingibjörg og Gummi í Hestskarði við Siglufjörð

14 október 2016

Kænan

Kænuganga á laugardag og alla laugardaga fram í apríl kl. 10, nema annað sé tekið fram.
Sigga

11 október 2016

Bjarney sjötug

Til hamingju með daginn kæra Bjarney. Bestu kveðjur frá Fjallafreyjum
Villi og Bjarney í Hestskarði við Siglufjörð

08 október 2016

Akranes

Hann blés hraustlega á okkur suðaustanvindurinn þegur við komum upp á Skaga í morgun.
31 mættu í þetta sinnið.
Við Akranesvita tók Svavar Haraldsson á móti okkur og sagði okkur sögu vitans og ýmsan fróðleik frá Akranesi. Allir fóru upp í vitann en þaðan var fallegt útsýnið í allar áttir. Tekið var lagið í vitanum sem hljómaði vel.
Efti ca hálftíma göngu meðfram ströndinni og Langasandi var snæddur góður hádegisverður á Garðakaffi, sem er í Byggðasafninu á Görðum.
Þaðan fóru allir saddir og sælir, ánægðir með góðan dag og góða leiðsögn.
Sigga
Séð yfir Akranes úr vitanum
Svavar segir frá

05 október 2016

Heimsókn á Akranes

Næsta laugardag verður síðasta formlega ganga þessa árs.
Þá heimsækjum við Akranes.
Gengið verður í ca klst undir leiðsögn Svavars Haraldssonar.
Hádegisverður snæddur í Garðakaffi við byggðasafnið að Görðum;  marineraður lax með kartöflusalati og kaffi + kaka á eftir.
Verð 2490 kr.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 10 og við Krónuna í Mosó kl. 10:20.
Hálfsdagsferð.
Síðan verða Kænugöngur eins og sl. vetur kl. 10 á laugardögum.
Sigga
Á Akrafjalli
Útsýni af Akrafjalli yfir Akranes

01 október 2016

Selatangar og Borgir/Katlar

Eftir að hafa ekið hina fallegu Krýsuvíkurleið að bílastæði neðan við Suðurstrandarveg gengum við stuttan spöl að rústum verstöðva við Selatanga og gáfum okkur góðan tíma í að skoða hleðslur verbúða og fiskbyrgja.  Maður verður ansi hugsi yfir þeim aðbúnaði sem fólk hefur búið við og verður þakklátur fyrir góð húsakynni okkar í dag.  Eftir að hafa rölt þarna um og jafnvel tínt nokkur ber fórum við til baka og yfir í Borgirnar í Katlahrauni sem eru vestan bílastæðisins.  Þetta er mjög stórbrotið svæði og mikið að skoða.  Alls konar hraunmyndanir, stórir drangar og hellar.  Þarna settumst við niður með nestið okkar.  Tók þetta rúma 2 tíma í góðu veðri.  Einnig var gaman að horfa á tilkomu mikið brimið og haustlitadýrðina.  Ókum svo Grindavíkurleiðina heim.  13 mætt í dag.
Vala

Með sól í augum og gleði í hjarta.

29 september 2016

ATH kl. 10

Laugardaginn kemur verður farið í Selatanga, gengið er frá bílastæði nokkru neðan við Suðurstrandarveg.  Á Selatöngum var verstöð frá miðöldum til 1884, þar eru fiskbyrgi og rústir verbúða hlaðnar úr hraungrýti.  Vestan við áðurnefnt bílastæði eru Katlar/Borgir, þar eru stórkostlegar hraunmyndarnir og legg ég til að við gefum okkur tíma til að skoða þær líka ef veður leyfir.  Ætla má að ferðin taki í heild sinni ca 4 klst., fer þó eftir því hvað við gefum okkur góðan tíma til að skoða, en þetta er ekki mikil ganga.
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 10.  Nesti.
Vala


24 september 2016

Haust í Mosó

Það var fallegt haust veður þegar 12 Freyjur og 1 Freyr lagði upp í göngu frá Varmárskóla í Mosó.
Gengin falleg leið upp með Köldukvísl og meðfram Helgafellinu upp í Skammadal.
Þar var tekin ákvörðun um að stytta gönguleiðina þar sem farið var að rigna nokkuð hressilega. Það var því gengið meðfram Reykjafjallinu, í stað þess að ganga yfir það.
Síðan sá leið eftir fallegum göngustíg niður með Varmánni og í gengnum Álafosskvosina. Nestið var snætt undir þaki við Dælustöðina.
Þegar komið var á bílastæðið við Varmárskóla var sólin að brjótast framúr skýjunum og regnboginn blasti við.
Góður en nokkuð blautur göngdagur, rúmir 11 km og tók þrjá og hálfan tíma.
Sigga
Hópurinn við upphafsstað
Skrifa myndatexta
Það voru margar brýr á vegi okkar

22 september 2016

Mosfellshringur

Næsta laugardag göngum við stóran hring í Mosfellsbæ.
Lagt af stað frá Varmárskóla, gengið upp með Köldukvísl og meðfram Helgafelli, upp Æsustaðafjall og Reykjafjall og þaðan niður í Sumarkinn, þar sem við fáum okkur nesti.
Síðan haldið niður með Varmá og gegnum Álafosskvos.
Hækkun ca 250 m í áföngum.
Ca 15 km. 4-5 tímar.
Nesti, hálfsdagsferð.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9:20
Sigga
Á góðum degi í Sumarkinn

Séð yfir Álfosskvos og Úlfarsfell

17 september 2016

Fegurð haustsins

9 Fjallafreyjur nutu fegurðar haustsins á göngu um skógræktarreiti félagasamtaka í Klifsholtum.  Gengum á Smyrlabúð, en þar er mjög gott útsýni.  Veður var  mjög gott, lyngt og hlýtt en lítilsháttar úrkoma og jörðin blaut og frekar hál.  Eftir tæplega 2 klst. göngu settumst við í reit Lionsklúbbs Hafnarfjarðar og fengum okkur nestið, en þar eru borð og bekkir eins og í fleiri reitum þarna.
Vala

Svava myndaði hópinn.

15 september 2016

Klifsholt

Næsta laugardag göngum við um Klifsholtin og lítum á skógræktarreiti ýmissa félagasamtaka.
Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.
Vala


10 september 2016

Tröllafoss

Vegna veðurútlits var ákveðið að hafa gönguna styttri og nota plan B.  Gengið var með stórfenglegu gljúfri Leirvogsár að Tröllafossi.  Horfðum við að Stardalshnúkunum og vorum sammála um að þangað vildum við fara einhvern daginn.  Gáfum við okkur góðan tíma til að njóta náttúrunnar og berjanna.  Veður var hið ágætasta en ekki mátti tæpara standa því þegar við komum að bílnum fór að rigna.  Ljúf ganga sem tók um 2 1/2 klst og mældist 5,2 km.  3 mættar í dag.
Vala


08 september 2016

Stardalshnúkur

Næsta laugardag verður gengið á Stardalshnúk 373 m.y.s.  Gengið verður frá bænum Stardal, hækkun um 200 m og áætlaður göngtími 3-4 klst.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Nesti.
Vala




Skálafell, Stiftamt og Stardalshnúkur


Útsýni af Stardalshnúk




06 september 2016

Helgafellið

4 kátar freyjur gengu á Helgafellið í flottu veðri, 13°C og léttskýjað.  Útsýnið meiriháttar og birtan mjög flott, farið er að bera á haustlitum og fallegt að horfa yfir t.d. Sléttuhlíðina.
Þetta var síðasta Helgafellsgangan hjá Fjallafreyjum þetta árið.
Vala



03 september 2016

Grafarvogur-Reynisvatn-Grafarholt.

Það var fámennt í göngu dagsins, en 3 vaskar Freyjur mættu.
Stillilogn og spegilsléttur Vogurinn tók á móti okkur. Haustlitirnir byrjaðir að sjást, dásamlegt útsýnið. Lengdum gönguna aðeins. Gengum frá Grafarvogskirkju, inn í Grafarholtið að Reynisvatni og í kringum það og svo aftur til baka norðanmeginn.
Rúmir 10 km og tók tvo og hálfan tíma með  nesti.
Sigga

Ps. Nú er formlegum síðdegisgöngum lokið.

02 september 2016

Sjöfn sjötug

Þessi flotta Fjallafreyja er sjötug í dag.
Innilegar hamingjuóskir með daginn kæra Sjöfn

01 september 2016

Grafarvogshringur

Næsta laugardag göngum við hring um Grafarvoginn.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 9, eða við Grafarvogskirkju kl. 9:15.
Tekur ca 2 tíma
Nesti
Sigga

27 ágúst 2016

Ævintýraferð

Mikið var gaman hjá okkur í dag í göngu á Þorbjörn.  Gengið var upp Gyltustíg og farið um þrönga Þjófagjána sem er algjör ævintýraheimur.  Skoðuðum svæðið þar sem Camp Vail stóð á stríðsárunum og gengum þaðan niður grasi gróna brekkuna að Baðsvöllum, þar sem skógræktin hefur útbúið mjög gott útvistarsvæði og þar nutum við nestisins okkar.  Eftir það gengum við Orkustíg að Bláa lóninu og síðan á bakaleiðinni gengum við með vesturhlíð fjallsins.  Þorbjörn skartar mörgum mjög glæsilegum klettamyndunum sem er virkilega gaman að skoða og flottu útsýni.  Veður var með miklum ágætum og 8 voru mætt. Gangan tók um þrjár og hálfa klukkustund og var um 9 km löng.
Vala



25 ágúst 2016

Þorbjörn

Næsta laugardag göngum við á Þorbjarnarfell (230 m.y.s.) við Grindavík.  Gengið verður upp að vestanverðu um Gyltustíg, farið gegnum Þjófagjá og niður á Baðsvelli, þaðan verður genginn Orkustígur í átt að Bláa lóninu.  Á bakaleiðinni göngum við með vesturhlíð fjallsins, milli hrauns og hlíðar.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Hálfsdagsferð.  Nesti.
Vala
Þorbjörn frá Baðsvöllum

21 ágúst 2016

Hreppaferð

Sveitin fallega skartaði sínu fegursta þegar Fjallafreyjur og Fákar heimsóttu  Hrunamannahreppinn.
Á Álfaskeiði tóku álfarnir á móti okkur við Skinnhúfuklett og útsýnið var fagurt af Langholtsfjalli.
Eftir kjarngóða gulrótasúpu með brauði og hundasúrupestói, ásamt úteyjarsilungi í Bragganum var haldið að Miðfelli, þar sem Skúli bóndi tók á móti hópnum á hlaðinu. Gengið var á Miðfellsfjallið og í kringum vatnið og var gott að busluaí þvi og skola þreytta fætur eftir gönguna.
Þegar niður kom gæddu göngufólkið sér á kaffi og kræsingum á pallinum í Miðfelli.
Þá var haldið að Flúðum, þar sem Margrét og Dóra tóku á móti okkur í brúðusafninu og handverkssafninu sínu. Þá var komið að því að skola af sér svitann og svamla um í Gömlu lauginni, hressandi og notalegt.
Deginum lauk svo með kvöldmat á Hótel Flúðum.
Viðburðarríkur og skemmtilegur dagur í sól og blíðu :)
Sigga
Á Álfaskeiði
Við Braggann

17 ágúst 2016

Ævintýraferð í Hrunamannahrepp.

Næsta laugardag förum við í Hrunamannahrepp.
Mæting við Iðnsk. í Hafnarf. kl. 9 eða við Rauðavatn kl. 9:15.
Farið á Álfaskeið í Langholtsfjalli og rölt á fjallið, (auðveld ganga) Síðan léttur hádegisverður í Bragganum. Farið að Miðfelli og gengið á fjallið (150 m hækkun) og í kringum vatnið, Kaffi og meðlæti á pallinum í Miðfelli eftir fjallgönguna.
Síðan ekið upp á Flúðum og farið á grænmetiskmarkað ofl.
Slakað á í Gömlu lauginni eftir það og kvöldverður á Hótel Flúðum eftir laugarferðina.
Hafa með sér vatn á brúsa og smá nasl.
Sundföt og föt til skiptana.
Dagsferð.
Ég hitti ykkur við Stóru-Laxárbrúna um kl. 10:30.
Sjáumst
Sigga

11 ágúst 2016

Mosfell

Næsta laugardag verður gengið á Mosfell í Mosfellsdal.  Dagný leiðir gönguna.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Nesti.
Vala



06 ágúst 2016

Enn einn frábær dagur til göngu

Gengið var um í hinni víðáttumiklu Hrútagjárdyngju og stórfengleg Hrútagjáin sem liggur umhverfis dyngjuna skoðuð.  Við vorum 12 sem tókum þátt í dag í sól og mildu veðri.  Gáfum okkur góðan tíma til að skoða þessi náttúruundur og njóta.  Ganga mældist 7 km og tók um 3 klst.
Vala


04 ágúst 2016

Hrútagjá

Næsta laugardag skoðum við Hrútagjá og Hrútagjárdyngju.  Ekið inn á Djúpavatnsleið og genginn hringur um þetta stórkostlega svæði.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Hálfdagsferð.  Nesti.
Vala


02 ágúst 2016

Helgafell

Frábært veður á Helgafellinu í dag.  13°C, léttskýjað og hægur vindur.  Útsýnið alveg stórkostlegt.  9 mætt.
Vala



30 júlí 2016

Sól og blíða

Frábært veður hjá okkur í dag, sól, hægviðri og heiðskírt.  Getur ekki verið betra.  Við vorum 8 sem mættum og gengum meðfram Undirhlíðunum að gígunum.  Virtum þá vel fyrir okkur áður en snúið var til baka.  Á bakaleiðinni litum við á Skólalund, en þar var skuggi yfir og svalt og enn lá dögg á jörðu.  Segja má að betra sé að heimsækja Undirhlíðarnar eftir hádegi á sólardögum, því tré eru orðin mjög hávaxinn og skógurinn þéttur.  Kaffið drukkum við á sólríkum stað rétt við lundinn.

Minni svo á Heiðmörk á mánudag kl. 17 og Helgafell á þriðjudag kl. 17.30.

Vala