13 september 2014

Og sólin skein!

Ákveðið var að fara ekki í Dauðadalina að þessu sinni, heldur var gengið á Þorbjörn.  Upp Gyltustíg á toppinn og síðan um hina mögnuðu Þjófagjá, skoðað hvar Camp Vail stóð á stríðsárunum og niður á Baðsvelli þar sem við nutum nestisins baðaðar í sólskini.  Þaðan gengum við Orkustíg að Bláa lóninu og svo til baka og áfram milli hrauns og hlíðar vestan við Þorbjörn.  Alltaf er jafngaman að ganga á Þorbjörn, landslagið þar er alveg stórkostlegt og fer hugarflugið á fullt, álfar og tröll út um allt.  Veður var með besta móti en þó var móða í lofti og skyggni því ekki eins gott og við hefðum viljað.  5 Fjallafreyjur gáfu sér góðan tíma til að skoða, njóta og mynda og tók gangan rúma 3 tíma.
Vala

Engin ummæli:

Skrifa ummæli