30 maí 2015

Plan B varð það

Hann blés heldur hraustlega af suðaustri í morgun, þannig ákveðið var að ganga hring frá Hvaleyrarvatni, um Bugar að Kaldárseli og þaðan um Gjár og Kjóadal aftur að vatninu.  Kíkt var á gamla rétt frá Hvaleyrarseli úti í hrauninu og skoðað hvernig Kaldáin hverfur niður í hraunið, en hún er mun lengri og vatnsmeiri en oft áður.  Það blés hressilega á okkur, en alltaf komu skjólblettir af og til og síðan var vindur í bakið seinni hluta göngunnar.  Kaffið var drukkið í  Gjánum glæsilegu.  Ýmsar gamlar hleðslur urðu á leið okkar og er alltaf gaman að skoða þær og hugsa aftur í tímann.  Þegar komið var að bílunum kom regnskúr og enginn teygði í göngulok að þessu sinni.  Gangan var um 10 km og tók 3 klst.  9 tóku þátt.
Vala

Engin ummæli:

Skrifa ummæli