09 júlí 2016

Húshólmi

Það voru 11 sem mættu til göngu í dag í fínasta veðri, reyndar var nokkur blástur en þurrt og bjart.  Gengið var frá bílastæði við Suðurstrandarveg með hraunjaðrinum þar til komið var að Húshólmastíg en hann liggur yfir í Húshólmann, þar má sjá ummerki um búskap til forna, en sú byggð mun hafa farið að mestu undir hraun.  Eftir að hafa skoðað okkur um í Húshólmanum fengum við okkur kaffi undir gömlum sjávarhömrum sem eru nokkurn spöl frá sjónum.  Þar er alveg magnað að sjá hvert lagið á fætur öðru í bergbrúninni.  Eftir nestisstoppið var gengið með berginu og horft yfir að litríkum brúnum Heiðnabergs og Krýsuvíkurbergs, þegar komið var að Vestarilæk var honum fylgt og síðan komið að einstöku gömlu fjárhúsi við klettahrygginn Stráka, sem er stórglæsilegur alsettur litlum tindum.  Þaðan var svo móinn þveraður að bílunum.  Gangan reyndist 10,3 km og tók rúma 4 tíma.
Vala


Engin ummæli:

Skrifa ummæli