28 september 2017

Þingvellir í haustlitum

Næsta laugardag verða Þingvellir heimsóttir.
Þórunn leiðir för um göngustíga svæðisins og við njótum haustlitanna.
Nesti, hálfsdagsferð.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9
Sigga
Á blautum degi við Öxarárfoss 2014

23 september 2017

Gráhelluhraun

Þrátt fyrir óspennandi veður mættu 8 til göngu í Gráhelluhrauninu.  Haft var á orði hvað við fyndum lítið fyrir veðrinu, þó rigndi allan tímann, en vindur var minni en búist var við.  Genginn var hringur eftir göngustíg og reiðstíg.  Dáðumst að litum haustsins, skoðuðum minnismerki um skógræktarfrömuði, tóftir fjárskjóls við Gráhellu og gamla vatnsból Hafnfirðinga.  Nutum svo nestisins í útikennslustofu í einu rjóðrinu, en þar eru bekkir og þak yfir sem kom sér vel því þegar við sátum þarna herti hressilega á regninu.  Gangan með nestisstundinni tók 1 1/2 tíma.
Vala

Við minnisvarða skógræktarfrömuða

21 september 2017

Plan B

Heimsókninni í Haukadalinn er frestað til næsta árs vegna mjög slæmrar veðurspár á þeim slóðum.  Heldur er spáin skárri á heimaslóð og verður því genginn hringur í Gráhelluhrauni frá fjárhúsinu við Kaldárselsveg.  Gengið verður eftir göngustíg og reiðstíg.  Ætla má að gangan með nesti í góðu rjóðri taki 1 1/2 til 2 tíma.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.
Vala

Í þungbúnu veðri horfir maður á það sem er nær

Í Gráhelluhrauni í vikunni

16 september 2017

Hrauntunguskógur

Þar sem veðurspáin boðaði slagveðursrigningu á Þórustaðastíg var samþykkt á plani uppástunga um að fara heldur í skjólið í Hrauntunguskógi, þar átti líka að vera mikið minni rigning.  Svo reyndist vera, aðeins dropar í lofti og skjólið gott þrátt fyrir mikinn þyt í trjánum.  Við okkur blasti mikil litadýrð og þótti okkur gaman að troðast um þröngar sprungur og bara njóta þess sem náttúran bauð uppá.  Tók gangan með nestisstoppi um 2 klst.  5 voru mætt.
Vala


14 september 2017

Þórustaðastígur

Næsta laugardag verður gengið eftir  Þórustaðastíg á Reykjanesi.  Gengið verður frá Vigdísarvöllum yfir Núpshlíðarhálsinn að gígnum  Moshól og svipuð leið til baka.  Þórustaðastígur liggur frá Vigdísarvöllum framhjá Keili að Þórustöðum í nágrenni Kálfatjarnar, en við munum einungis taka hluta leiðarinnar.  Ætla má að gangan verði um 8 km og frekar aflíðandi hækkun um 200 m.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Vala

Þórustaðastígur við Vigdísarvelli

Gígurinn Moshóll handan Núpshlíðarháls

09 september 2017

Friður og fegurð.

14 Fjallafreyjur hófu göngu dagsins frá Lágafellskirkju í yndislegu haustveðri. Gengið var áleiðis að Hafravatni, sem var spegilslétt og fallegt. Gengum uppá Lala, sem er 245 mys og fram á brúnir Hafrahlíðar. Þaðan var útsýnið fagurt og frítt í allar áttir. Þar sem veðrið var svo gott og enginn að flýta sér lengdum við gönguna aðeins og gengum uppá Reykjaborg, 288 mys. Þar var ný sjónskífa sem var vel stúderuð. Göngu lauk síðan við Lágafellskirkju 4 og hálfum tíma seinna og vegalengdin var ca. 14 km.
Góður dagur með góðum göngufélugum.
Á Hafrahlíð, Hafravatn í baksýn
Á Lala

Á Reykjaborg


07 september 2017

Lágafell-Hafravatn-Lali

Næsta laugardagsganga verður frá Lágafellskirkju. Gengin vegaslóð að Hafravatni í gegnum skógrækt Mosfellsbæjar og uppá Lala,(245mys.)  sem flugdrekamenn nota mikið til svifflugs.
Á leið okkar verða nokkrar berjaþúfur sem vert er að staldra við.
Ca. 11 km ganga og tæpl. 200 m hækkun.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9, eða við Lágafellskirkju kl. 9:20.
Nesti
Sigga
Hafravatn

05 september 2017

Helgafellið

Þá er Helgafellsgöngum Fjallafreyja lokið þetta árið.  7 Fjallafreyjur gengu á fjallið í dag.  Lítils háttar úrkoma í byrjun og þoka á toppnum, engu að síður fínasta ganga.  Gengum "gömlu leiðina" upp, en  niður "gilið".
Vala


02 september 2017

Hressandi

10 Fjallafreyjur og 1 Fákur mættu í gönguna í dag.
Gengum frá bílastæðinu uppá Kögunarhól í Esjuhlíðum og þaðan eftir hlíðinni og niður vegaslóða niður hjá Mógilsá. Nokkrar berjaþúfur urðu á leið okkar sem voru vel nýttar. Falleg leið.
Hressandi gola og þurrt í byrjun en nokkur rigning síðasta hálftímann.
6.7 km og  tveir og hálfur tími.
Sigga