29 október 2016

Ganga og afmæli

Þrátt fyrir slagveður mættu 18 Fjallafreyjur að Kænunni í dag.  Gengið var um götur bæjarins þar sem skjól var að fá og okkur til happs rigndi sáralítið á meðan á göngunni stóð.  Hitinn bara hækkaði svo við vorum vel heitar þegar við mættum í afmælið hennar Ingibjargar, þar sem 7 bættust svo í hópinn.  Ingibjörg og Gummi ásamt dætrum tóku aldeilis vel á móti okkur eins og þeim einum er lagið.  Fínar veitingar (okkur finnst svoo gott að borða :) ) og svo var sungið og spilað á gítar.  Virkilega gaman.   Kæra fjöldskylda, innilegar þakkir fyrir skemmtilega stund og flottar móttökur.
Vala

27 október 2016

Ingibjörg sextug

Fjallafreyjur óska þessari flottu konu innilega til hamingju með sextíu árin.
Hún býður í kaffi eftir Kænugöngu næsta laugardag kl. 11
Ingibjörg og Gummi í Hestskarði við Siglufjörð

14 október 2016

Kænan

Kænuganga á laugardag og alla laugardaga fram í apríl kl. 10, nema annað sé tekið fram.
Sigga

11 október 2016

Bjarney sjötug

Til hamingju með daginn kæra Bjarney. Bestu kveðjur frá Fjallafreyjum
Villi og Bjarney í Hestskarði við Siglufjörð

08 október 2016

Akranes

Hann blés hraustlega á okkur suðaustanvindurinn þegur við komum upp á Skaga í morgun.
31 mættu í þetta sinnið.
Við Akranesvita tók Svavar Haraldsson á móti okkur og sagði okkur sögu vitans og ýmsan fróðleik frá Akranesi. Allir fóru upp í vitann en þaðan var fallegt útsýnið í allar áttir. Tekið var lagið í vitanum sem hljómaði vel.
Efti ca hálftíma göngu meðfram ströndinni og Langasandi var snæddur góður hádegisverður á Garðakaffi, sem er í Byggðasafninu á Görðum.
Þaðan fóru allir saddir og sælir, ánægðir með góðan dag og góða leiðsögn.
Sigga
Séð yfir Akranes úr vitanum
Svavar segir frá

05 október 2016

Heimsókn á Akranes

Næsta laugardag verður síðasta formlega ganga þessa árs.
Þá heimsækjum við Akranes.
Gengið verður í ca klst undir leiðsögn Svavars Haraldssonar.
Hádegisverður snæddur í Garðakaffi við byggðasafnið að Görðum;  marineraður lax með kartöflusalati og kaffi + kaka á eftir.
Verð 2490 kr.
Mæting við Iðnsk. í Hf. kl. 10 og við Krónuna í Mosó kl. 10:20.
Hálfsdagsferð.
Síðan verða Kænugöngur eins og sl. vetur kl. 10 á laugardögum.
Sigga
Á Akrafjalli
Útsýni af Akrafjalli yfir Akranes

01 október 2016

Selatangar og Borgir/Katlar

Eftir að hafa ekið hina fallegu Krýsuvíkurleið að bílastæði neðan við Suðurstrandarveg gengum við stuttan spöl að rústum verstöðva við Selatanga og gáfum okkur góðan tíma í að skoða hleðslur verbúða og fiskbyrgja.  Maður verður ansi hugsi yfir þeim aðbúnaði sem fólk hefur búið við og verður þakklátur fyrir góð húsakynni okkar í dag.  Eftir að hafa rölt þarna um og jafnvel tínt nokkur ber fórum við til baka og yfir í Borgirnar í Katlahrauni sem eru vestan bílastæðisins.  Þetta er mjög stórbrotið svæði og mikið að skoða.  Alls konar hraunmyndanir, stórir drangar og hellar.  Þarna settumst við niður með nestið okkar.  Tók þetta rúma 2 tíma í góðu veðri.  Einnig var gaman að horfa á tilkomu mikið brimið og haustlitadýrðina.  Ókum svo Grindavíkurleiðina heim.  13 mætt í dag.
Vala

Með sól í augum og gleði í hjarta.