28 maí 2016

Rok og rigning

Heldur var nú veðrið öðruvísi en okkur hafði dreymt um í göngunni í dag, en hann blés hraustlega á okkur og einnig rigndi töluvert, þannig að fyrirhugaðri gönguleið var breytt.  Gengið var að Gullbringuhelli þar sem nestið var tekið upp og þar snerum við við, enda enginn áhugi á að ganga á fjallið hulið þoku og í rífandi blæstri.  Við sáum sjaldan til Gullbringu og landslagið í grennd sást lítið og er það miður því þarna er ákaflega fallegt í björtu veðri.  Sem betur fer stytti þó upp í lokin svo mesta bleytan þornaði áður en í bílinn kom.  En hressandi var þetta :)  Gangan var 8,5 km löng og tók 2 1/2 klst.  6 mættu í dag.
Vala


26 maí 2016

Gullbringa

Næsta laugardag verður gengið á Gullbringu (308 m).  Genginn verður um 9 km hringur frá Hverahlíð við suðurenda Kleifarvatns.  Áætluð heimkoma um kl. 14.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.
Vala
Gullbringa fyrir miðju

21 maí 2016

Hólmsheiðin..

.. tók vel á móti okkur 15 Fjallafreyjum og -fákum í dag, sól, léttskýjað og hægur vindur.  Þetta eru mjög skemmtilegir stígar sem Herdís leiddi okkur um og ótrúlega flott útsýni víða.  Takk fyrir okkur Herdís, alltaf gaman að ganga með þér.  Gangan með góðu kaffistoppi tók rúma 2 tíma og var ca 7 km löng.
Vala

19 maí 2016

Hólmsheiði

Næsta laugardag verður þægileg ganga á göngustígum á Hólmsheiði, ca eins og hálfstíma ganga.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 eða við Maríubaug 127 í Grafarholti kl. 9:15, þar sem Herdís tekur á móti hópnum. Nesti
Sigga

15 maí 2016

Síðdegisgöngur í Heiðmörk og við Hvaleyrarvatn

Síðdegisgöngurnar hefjast mánudaginn 16. maí.
Á mánudöngum verður gengið í Heiðmörk, mæting við gönguhliðið í Vífilstaðahlíð kl. 17 og á miðvikudögum við Hvaleyrarvatn, mæting við vesturenda vatnsins kl. 17.
Sigga

12 maí 2016

Sléttuhlíð

Sléttuhlíðin er á dagskrá næsta laugardag. Mæting við Iðnsk.í Hf. kl. 9, nesti.
Óla ræður för.
Sigga

07 maí 2016

Frábært vorveður í dag

Það var alveg hreint yndislegt að ganga í dag, sól, milt og hægur vindur.  14 mættu að Vifilstaðavatni í dag, en þaðan ókum við að áningunni í Sandahlíð, gengum síðan uppá hæðina og þaðan að Grunnavatni.  Við Grunnavatn er skógarreitur kvæðafélagsins Iðunnar og var gaman að sjá hvað þar hefur verið vel að verki staðið.  Síðan var haldið að Arnabæli og útsýnis notið þaðan til allra átta.  Eftir það tóku við stígar Sandahlíðarinnar.  Gangan var 6,2 km og tók rétt rúma 2 tíma, eftir á sátum við lengi í góða veðrinu yfir nesti og spjalli í frábærri aðstöðu Skógræktarfélags Garðbæinga við Sandahlíðina.
Vala


Á toppi Arnarbælis

05 maí 2016

ATH kl. 9 Sandahlíð við Vífilstaðavatn

Næsta laugardag göngum við uppá Sandahlíð(160 m), þaðan er mjög víðsýnt og síðan að Grunnavatni og Arnarbæli.  Á köflum er gönguleiðin nokkuð gróf yfirferðar en í lokin er gengið á stígum.  Þetta er um 6 km hringur og ætla má að gangan og kaffið taki 2-3 tíma.  Gangan hefst við skógræktina í Sandahlíð.  Mæting á malbikaða bílastæðinu við Vífilstaðavatn kl. 9.  Nesti.
Vala
Grunnavatn

03 maí 2016

Helgafellið

Virkilega góð og hressandi ganga á Helgafellið í dag.  Sól, 7°C og smágjóla. Hefði nú viljað sjá betri mætingu en það voru 5 sem gengu núna.
Vala