30 maí 2015

Plan B varð það

Hann blés heldur hraustlega af suðaustri í morgun, þannig ákveðið var að ganga hring frá Hvaleyrarvatni, um Bugar að Kaldárseli og þaðan um Gjár og Kjóadal aftur að vatninu.  Kíkt var á gamla rétt frá Hvaleyrarseli úti í hrauninu og skoðað hvernig Kaldáin hverfur niður í hraunið, en hún er mun lengri og vatnsmeiri en oft áður.  Það blés hressilega á okkur, en alltaf komu skjólblettir af og til og síðan var vindur í bakið seinni hluta göngunnar.  Kaffið var drukkið í  Gjánum glæsilegu.  Ýmsar gamlar hleðslur urðu á leið okkar og er alltaf gaman að skoða þær og hugsa aftur í tímann.  Þegar komið var að bílunum kom regnskúr og enginn teygði í göngulok að þessu sinni.  Gangan var um 10 km og tók 3 klst.  9 tóku þátt.
Vala

28 maí 2015

Húshólmi - Strákar ?

Gengið frá Suðurstrandarvegi í Húshólma, þaðan með bjargbrúnum að Vestarilæk, honum fylgt að fjárhúsunum við Stráka.  Þetta er um 10 km hringur.  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9.  Nesti.  Hálfsdagsferð.
Núna er veðurspáin fyrir þetta svæði óhagstæð og gæti farið svo að grípa þurfi í plan B
Vala


25 maí 2015

Heiðmörkin

Mikið var gott að byrja síðdegisgöngurnar.  6 mættu í Heiðmörkina í dag, tóku brekkuna rösklega og voru endurnærðar að göngu lokinni.  Vonandi verður góð mæting við Hvaleyrarvatnið á miðvikudaginn.
Vala

24 maí 2015

Heiðmörk, Hvaleyrarvatn

Mánudaginn 25. maí hefjast sumargöngurnar frá Heiðmerkurhliði kl. 17, og verða á miðvikudögum við Hvaleyrarvatn (mæting við vesturenda)  kl. 17. Hressilegar klukkustunda göngur.
Sigga

23 maí 2015

Úlfarsfell var það

Vegna regns og lélegs skyggnis var göngu á Akrafjall frestað. Í þess stað var farið á Úlfarsfellið.
10 mættu til leiks, upp á toppana tvo og niður á tæpum 1 og hálfum tíma.
Göngugarpar voru vel votir í göngulok og ákváðu að snæða nestið heima.
Hressandi og gott eins og alltaf.
Sigga

21 maí 2015

Akrafjall

Gengið eftir þægilegum vegi upp frá Fellsenda við austurenda fjallsins upp á Bungu (572 m).  Mæting við Iðnskólann í Hafnarfirði kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9.20.  Nesti.  Dagsferð.
Verði mikil rigning verður áætlun breytt.
Vala


16 maí 2015

Helgafell-Skammidalur

Það var sól og blíða hjá okkur 25 göngugörpum sem lögðum uppá Helgafellið í Mosó í morgun.
Gengið var upp vesturhlíðina síðan yfir fjallið til austurs, niður í Skammadal og í Úulund, þar sem við snæddum nestið. Úulundur er gróðurreitur Lionsklúppsins Úu í Mosfellsbæ.
Síðan var gengin vegaslóð suður og vesturfyrir Helgafellið að bílastæðinu.
Þetta var rúml. 7 km hringur og tók 3 tíma.
Takk fyrir daginn.
Sigga


14 maí 2015

Helgafell-Skammidalur í Mosó

Vegna lokunar Hvalfjarðarganga um næstu helgi verður breyting á gönguplani.
Næsta laugardag förum við á Helgafell og inn í Skammadal í Mosfellsbæ.
Þægileg ganga sem tekur einn og hálfan til tvo tíma.
Nesti.
Stefnum á Akrafjall laugardaginn 23. maí.
Mæting við Iðnsk. Hf. kl. 9 eða við Krónuna í Mosó kl. 9:20.
Sigga

09 maí 2015

Afmæli

33 Fjallafreyjur fögnuðu saman 20 ára afmælinu í dag í blíðskaparveðri.
Gengið var inn í Valaból og skálað í púrtvíni, Dýrindismatarveisla í Kaldárseli þar sem Grillvagninn sá um veitingarnar. Söngur upplestur og grín að okkar hætti.
Takk kærlega fyrir daginn og vináttuna í 20 ár kæru Fjallafreyjur.
Sigga

07 maí 2015

Fjallafreyjur 20 ára

Næsta laugardag fögnum við 20 ára afmæli Fjallafreyjanna, en þær voru stofnaðar  6. maí 1995.
Mæting við hús KFUM og K í Kaldárseli, gengin létt ganga inn í Valaból.
Sest að veisluborði kl. rúmlega 12,  en Grillvagninn sér um gómsætan hádegisverð.
Skemmtum okkur saman fram á miðjan dag með söng og gamanmálum.
Hlakka til að sjá ykkur.
Sigga
Gott að sameinast í bíla til að spara bílastæði og endilega muna eftir gleraugunum fyrir söngtextana :)
Stofnfundur Fjallafreyja í Heiðmörk 6. maí 1995

05 maí 2015

Sól

og heiðskírt, en svalt í veðri.  Útsýnið dásamlegt.  10 mættar.
Vala

02 maí 2015

Himinnblíða í Mosó

Veðrið lék við okkur í dag. Sól og blíða, logn og fagurt landslag.
Gengnir voru rúmir 11 km og tók það 3 tíma og 20 mín með nesti.
17 Fjallafreyjur mættu.
Góður dagur.
Sigga